Hagfræðingurinn og nóbelsverðlaunahafinn Gary Becker ritaði á dögunum ásamt tveimur kollegum sínum grein í The Wall Street Journal um tvöfaldan ávinning skattalækkana. Í Bandaríkjunum er líkt og hér á landi rökrætt um kosti og galla lækkunar skatta og þar líkt og hér er ærinn fjöldi manna sem sér lægri sköttum flest til foráttu. Becker og félagar fylla ekki þann hóp, en styðja þess í stað skattalækkun af tveimur ástæðum sem þeir tiltaka í greininni: „Í fyrsta lagi hafa skatttekjur áhrif á eyðslu ríkisins, þannig að lægri tekjur fela í sér lægri ríkisútgjöld. Í annan stað er hagvöxtur bæði háður mannauði og fastafjármunum, og skatthlutföll hafa áhrif á fjárfestingu bæði í mannauði og fastafjármunum.“
Varðandi fyrrgreinda atriðið benda hagfræðingarnir á að ríkisútgjöld, líkt og útgjöld fyrirtækja og heimila, takmarkist af tekjum: „Hagfræðingar líta yfirleitt svo á að útgjöld ríkisins séu gefin stærð sem fari eftir þörfum samfélagsins. Þeir reikna með því að skattar, þar með taldir skattar á peninga vegna verðbólgu, lagi sig að þessum útgjöldum til að jafnvægi náist í rekstri ríkisins. Þrátt fyrir þetta gefa bæði hagfræðikenningar og reynsla til kynna að útgjöld lagi sig oft að þeim skatttekjum sem til eru en ekki öfugt.“
Það sem Becker og félagar benda á varðandi skattalækkanir og mannauð er ekki síður athyglisvert: „Stighækkandi tekjuskattur á einstaklinga hefur tilhneigingu til að draga úr fjárfestingu í mannauði vegna þess að hann minnkar ráðstöfunartekjur og umbun þeirra sem eru í krefjandi og vel launuðum störfum. Nemendur leggja á sig mikla vinnu til að komast inn í vel launuð störf á sviði læknisfræði eða verkfræði. Gæði vinnuaflsins í þessum störfum er minna í löndum sem takmarka ráðstöfunartekjur þessara sérfræðinga, vegna þess að lægri ráðstöfunartekjur letja einstaklinga til að fjárfesta í þessari færni. Stighækkandi skattkerfi dregur úr ávinningnum af því að verða sér úti um færni sem er verðmæt fyrir samfélagið.“ Þessi sjónarmið hafa ekki heyrst hér á landi þegar stjórnmálamenn hafa reynt að gera sig gildandi í menntamálum með því krefjast aukinna opinberra útgjalda. Þeir mættu að ósekju hafa þau í huga næst þá langar til að slá sig til riddara í misskilinni baráttu fyrir aukinni menntun á kostnað skattgreiðenda.