Það kom ýmsum á óvart að skattalækkanir voru það einstaka mál sem átti mestan samhljóm hjá stjórnmálaflokkunum í síðustu kosningabaráttu, þótt ekki væri það undantekningarlaust. Útfærsla flokkanna á þessu skattalækkanamarkmiði var auðvitað ólík, en upp úr stóð að flestir þeirra virtust telja að svo vel hefði miðað í efnahagsmálum að undanförnu að á komandi kjörtímabili væri svigrúm til að koma til móts við landsmenn í skattamálunum. Því ætti það að vera fagnaðarefni að í stjórnarsáttmálanum er mjög afgerandi ákvæði um þann þátt. Á þessari stefnu er hnykkt í þjóðhagsáætlun þeirri sem ég hef kynnt þinginu, þar sem lögð er áhersla á að um 20 milljörðum króna verði á kjörtímabilinu varið til skattalækkana. Þeirri tölu er ekki fastar slegið nú, þar sem útfærsla einstakra breytinga er enn eftir og kjarasamningar liggja ekki fyrir. |
– Úr stefnuræðu Davíðs Oddssonar forsætisráðherra 2. október 2003. |
Á árunum 2005-2007 verði varið um 20 milljörðum króna til skatta-lækkana og allt að 3 milljörðum króna til tiltekinna verkefna, s.s. til hækkunar barnabóta.. |
– Úr fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins um fjárlagafrumvarpið 1. október 2003. |
ÚPENINGARt af fyrir sig er ekki von á góðu þegar menn hugsa dæmið þannig að ríkissjóður „verji“ fé til skattalækkana. Í þeirri hugsun felst að ríkissjóður eigi allar tekjur manna en ákveði náðarsamlegast að „verja“ stundum hluta þeirra í að nokkrar krónur verði eftir í launaumslagi hins almenna manns. Það eru með öðrum orðum ekki teknir skattar af landslýð heldur skammtar ríkissjóður honum vasapening. En hvað þýðir það eiginlega að ríkissjóður ætli að sjá af 20 milljörðum króna á kjörtímabilinu með skattalækkunum? Munu skattar lækka sem nemur 20 milljörðum króna á ári eða má deila í þá tölu með árafjöldanum í kjörtímabilinu? Óskýr framsetning ríkisstjórnarinnar á þessum markmiðum sínum er móðgun við skattgreiðendur.
Einhver hefði kannski ætlað að með því að skoða frumvarp til fjárlaga og kynningu fjármálaráðherrans á því mætti komast að hinu sanna. Verða skattar lækkaðir um 20 milljarða króna eða eitthvað brot af því? Þegar fjármálaráðherra hafði lokið kynningu sinni á fjárlagafrumvarpinu í byrjun mánaðarins var hins vegar fæst sem benti til þess að ríkisstjórnin ætli sér að lækka skatta í líkingu við það sem stjórnarflokkarnir lofuðu fyrir kosningar. Báðir flokkarnir lofuðu að lækka skatta um nálægt 20 milljörðum króna. Sjálfstæðisflokkur öllu meira og Framsóknarflokkur minna. Á kynningu fjármálaráðherrans mátti vissulega skilja að 20 milljörðum króna yrði varið til skattalækkana. En það verður á þremur árum, 2005 til 2007. Skattalækkunin verður því að líkindum aðeins 6,66 milljarðar króna.
Hvernig er hægt að kalla það að koma til móts við landsmenn í skattamálum þegar lagt er til að skattar verði lækkaðir um 6,66 milljarða króna í áföngum á næstu fjórum árum en tekjur ríkissjóðs af landsmönnum hafa aukist um yfir 100 milljarða króna frá því ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks settist að völdum?
Og hvernig koma væntanlegar hækkanir á sköttum á eldsneyti til móts við landsmenn?