Þriðjudagur 7. október 2003

280. tbl. 7. árg.

Ísíðustu viku var síðasta verksmiðjan í eigu ríkisins seld. Ríkið rekur því ekki lengur fyrirtæki þar sem fílefldir karlmenn með fáar prófgráður framleiða áþreifanlegan iðnvarning og fiskimjöl í hávaða og með látum. Í staðin eru komin ríkisfyrirtæki þar sem einkum starfa verkefnisstjórar af báðum kynjum með langa vist í skólastofu að baki. Jafnréttisstofur, -nefndir og ráð, sendiráð, umboðsmenn, manneldisráð, samkeppnisráð, umhverfisstofur, lýðheilsustöð, eftirlit, fræðasetur, söfn og sjóðir hafa leyst gamla verksmiðjureksturinn af hólmi. Í stað steinullar og sements framleiða nýju ríkisfyrirtækin efni í loftkastala. PowerPoint sýningar í stað Portland sements. Hvernig megi hanna þjóðfélagið upp á nýtt með alls kyns áætlunum og átaksverkefnum, boðum og bönnum. Og þetta er ekki gert í hávaða og látum heldur við lágvært suð í fartölvum.

Gömlu ríkisverksmiðjurnar þurftu oftast að selja framleiðslu sína. Og á þeim var oft tap, jafnvel 10 – 20% af veltu, sem menn bentu á í hneykslan. Nýju ríkisfyrirtækin þurfa ekki að selja eitt eða neitt og eru meira og minna rekin með 90 – 120% tapi. Enginn segir neitt við því. Þótt reksturinn sé margfalt verri en í gömlu ríkisverksmiðjunum fá starfsmennirnir, afsakið verkefnastjórarnir, í nýju ríkisfyrirtækjunum engu að síður margföld laun kallana sem sekkjuðu sementið, áburðinn og fiskimjölið. Þegar nútímavæðingin, faggilding, löggildingin, gæðastjórnunin, stjórnunarnámskeiðin, leiðtoganámskeiðin, vinnuvistfræðin, vinnusálfræðin, starfsmannastefnan, jafnréttisáætlunin, endurmenntunin, símenntunin og samráðsfundirnir í Brussel skella á af fullum þunga dugar víst ekkert annað en langskólavistað fólk á háum launum. Nýju ríkisstarfsmennirnir eru margfalt dýrari en þeir gömlu.

Nýju ríkisfyrirtækin eru því ekki aðeins dýrari en gömlu verksmiðjurnar heldur eiga mörg þeirra það sammerkt að starfsmenn þeirra hafa meiri áhuga á hinum almenna manni en góðu hófi gegnir. Hlutaskítur virðist skipa hvert rúm. Hvers kyns afskiptasemi af náunganum einkennir starfsemi flestra þessara nýju ríkisapparata. Þau eru hættulegri pyngju og frelsi hins almenna manns en ríkisverksmiðjurnar voru nokkurn tímann.