Fimmtudagur 25. september 2003

268. tbl. 7. árg.

T

Beckham hlýtur verðskuldaða viðurkenningu í Frakklandi árið 1998 fyrir að stuðla að sáttum milli Englands og Argentínu.

veir áhugamenn um heimsfrið og knattspyrnu hafa hrundið af stað átaki sem þeir ætla að muni ýta undir hvort tveggja. Eða kannski frekar, þeir telja að framgangur knattspyrnu og aukin þátttaka í henni muni stuðla að heimsfriði. Að minnsta kosti er inntakið í boðskap þessara tveggja manna, Davids Beckhams og Svens Görans Erikssons, eitthvað á þessa leið. Í tilefni af þessu átaki og þeim fullyrðingum að knattspyrna stuðli að friði og skilningi gat breska tímaritið The Spectator vitaskuld ekki stillt sig um að spyrja hvers vegna það væri sem breskum ríkisborgurum væri eindregið ráðlagt að forðast Tyrkland hinn ellefta næsta mánaðar, þann dag sem breskir knattspyrnumenn munu keppa við tyrkneska knattspyrnumenn í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu, íþrótt friðarins.

Nú er í sjálfu sér ekkert að því, svona þannig, að menn gangi um með þá kenningu að tiltekin íþróttagrein stuðli að heimsfriði, lækni menn af malaríu eða hreinsi þarmana. Svo lengi sem menn fara ekki fram á opinberan stuðning við baráttuna þá mega þeir alveg boða þessa kenningu eins og aðrar. Þessi barátta þeirra félaga, Erikssons og Beckhams, minnir hins vegar á lítið atriði sem allt í lagi er að hafa í huga þegar boðað er gríðarlegt almennt gildi einhvers sértæks málefnis: Þeir sem boða hið almenna gildi, þeir hafa ósjaldan sjálfir hagsmuna að gæta. Það eru áhugamenn um listir og menningu sem tala fyrir styrkjum til lista og menningar. Þeir sem telja nauðsynlegt að stækka áhorfendastúkur við fótboltavöll, það eru menn sem ætla annað hvort að kaupa eða selja aðgöngumiða. Það eru áhugamenn um klassíska tónlist sem telja að tónlistarhús hafi mikið almennt gildi. „Maturinn er besta landkynningin“ sagði maður nokkur um árið. Hann var í kokkalandsliðinu. Og þeir Beckham og Eriksson, þessir sem telja að einmitt knattspyrna sé líkleg til að valda straumhvörfum, hvaða íþrótt halda menn að þeir starfi við?

Sjálfsagt hafa menn mismikið fyrir sér þegar þeir halda því fram að tiltekið áhugamál fárra hafi gríðarlegt almennt gildi. Það sannar vissulega hvorki né afsannar neitt þó baráttumennirnir sjálfir hafi hagsmuna að gæta. En því tengdari sem menn eru baráttumáli sínu, þeim mun meiri ástæða er fyrir annað fólk að hafa vara á sér þegar söngurinn byrjar. Því oftar sem einhver maður segist sjálfur ætla að nýta þá aðstöðu sem hann telur „í almannaþágu“ að reisa, þeim mun meiri ástæða er til að efast um allt saman.