Cato-stofnunin bandaríska gaf í síðustu viku út skýrslu um notkun ávísanakerfis í skólamálum. Í skýrslunni er meðal annars fjallað um aukið skrifræði í menntakerfinu í Bandaríkjunum, en hvers konar fræðsluráð eru vel þekkt víðar en hér á landi. Bent er á að skólaumdæmi hafi stækkað mikið á síðustu áratugum og að því hafi fylgt mikil fjölgun starfsmanna menntakerfisins, annarra en kennara. Á árunum 1960-1984 meira en tvöfaldaðist fjöldi þeirra sem ekki kenna, en starfa þó í menntakerfinu. Á sama tímabili fjölgaði kennurum mun minna eða um 60%. Kennarar eru nú aðeins 52% af starfsmönnum skóla í Bandaríkjunum, en hlutfallið var 70% árið 1950.
Í skýrslunni segir að það séu ekki aðeins baráttumenn fyrir frjálsu markaðshagkerfi sem bent hafi á vanda miðstýringar í skólakerfinu. Forseti bandaríska kennarasambandsins hafi einnig lýst þessu vandamáli: „Opinbert menntakerfi starfar eins og áætlunarbúskapur. Það er skrifræði þar sem hlutverk hvers og eins er fyrirfram ákveðið og litlir hvatar eru til nýbreytni og framleiðni. Það er engin furða þótt skólakerfið okkar batni ekki; það líkist meira kommúnísku hagkerfi en markaðshagkerfinu okkar.“
Þetta er þungur áfellisdómur yfir ríkjandi kerfi, en skýrsluhöfundur, David F. Salisbury, telur sig hafa lausnina. Hann vill taka upp ávísanakerfi sem felur í sér að börn, eða foreldrar þeirra, fá styrk frá hinu opinbera til að greiða fyrir skólavist, en geta valið þann skóla sem þau vilja. Slíkum hugmyndum hefur stundum verið andmælt á þeim forsendum að styrkurinn dygði ekki fyrir góðum skólum, en samkvæmt rannsókn Salisbury á það ekki við rök að styðjast. Jafnvel þótt styrkurinn næmi einungis tveimur þriðju hlutum þess sem hið opinbera greiðir nú með hverjum nemanda í opinberan skóla, þá gætu öll börn sótt góða einkaskóla, því kostnaðurinn við opinberu skólana er yfirleitt svo miklu hærri en kostnaðurinn við einkaskólana.