Miðvikudagur 13. ágúst 2003

225. tbl. 7. árg.

Í

Ef menn vara sig ekki er liklega stutt í að svona skilti verði sett upp við hlið skilta um reykingabann.

miðopnu Morgunblaðsins var í gær birt umhugsunarverð grein. Greinin fjallar um offitu í Bandaríkjunum og þær aðferðir sem ýmsir eru tilbúnir að beita til að berjast gegn henni. Nefnt er að sumir vilji að sérstakur skattur verði lagður á „fitandi mat“, að bannað verði að auglýsa „ruslfæði“ og að veitinga- og skyndibitastaðir verði skyldaðir til að hafa upplýsingar um næringargildi á matseðlum sínum. Ef einhver telur að þar með hafi allar vitlausustu hugmyndirnar verið nefndar verður að hryggja hann með því að svo er ekki. Ein hugmyndin gengur út á að skattleggja sérstaklega „helstu táknmyndir lífsstíls sem einkennist af kyrrsetu“, eins og það er orðað. Og hverjar eru þessar hættulegu táknmyndir hins óæskilega lífsstíls? Jú, þær eru tölvuleikir, DVD-myndir og miðar í kvikmyndahús. Ekki kom fram hvort miðar á sinfóníutónleika eða leiksýningar skuli líka skattlagðir sérstaklega samkvæmt hugmyndinni, en það kæmi þó á óvart. Eins kæmi á óvart ef ungmenni yrðu rukkuð um háar fjárhæðir fyrir að voga sér inn á skólabókasöfn. En hver veit, ef til vill verða þau meira að segja látin greiða þunga skatta fyrir að mæta í tíma í stað þess að ólmast allan daginn á skólalóðinni.

En þótt hugmyndirnar séu vitlausar og flestum þyki þær sennilega hlægilegar nú, er full ástæða til að taka þær alvarlega og vera vakandi fyrir þeirri frelsisskerðingu sem þær boða. Í þessu sambandi má hafa í huga að ekki er ýkja langt síðan farið var að reka áróður gegn tóbaki vegna skaðsemi þess, ekki nema um hálf öld. Á skömmum tíma hafa eðlileg varnaðarorð þeirra sem hafa áhyggjur af skaðsemi reykinga snúist upp í baráttuna fyrir nánast algeru banni við neyslu tóbaks og skerðingu á frelsi reykingamanna, eigenda veitingahúsa og ýmissa annarra. Nú virðist baráttan gegn „óhollum“ mat ætla að fara sömu leið.

Í baráttu sem þessari virðist hættan sú að ofstækismenn taki forystuna og takist þar með að skerða persónuréttindi borgaranna. Í stað þess að þeir sem eru á móti tilteknum neysluvörum láti sér nægja að reka áróður gegn þessum vörum og halda fram skaðsemi þeirra, freistast þeir til að beita aðra ofríki og kúga þá til að breyta lífi sínu. Afskiptasemin verður svo yfirgengileg að eigendur veitingahúsa mega ekki ráða því hvort þar er heimilt að reykja eða ekki og matvælaframleiðendur mega ekki ráða því hvert fitu-, kolvetna- og próteininnihald framleiðslunnar er. Og það sem er ekki síður slæmt; almennir borgarar, sem eiga að heita sjálfráða, fá ekki sjálfir að ráða því hvort þeir neyta þessa eða hins. Þeir fá ekki vandræðalaust að neyta þess sem þeir sjálfir vilja heldur skulu þeir einungis innbyrða það sem einhverjir aðrir álíta „hollt“.