Þriðjudagur 12. ágúst 2003

224. tbl. 7. árg.
Skattrannsóknarstjóri segir birtingu álagningarskrár fæla menn frá skattsvikum. Ábendingar frá almenningi hafi oft leitt til rannsóknar á umfangsmiklum skattsvikum.
 – Kynning kvöldfréttar í Ríkissjónvarpinu 6. ágúst 2003.

Það eru ýmsar leiðir til að segja fréttir. Ein sú er að gefa eitthvað allt annað skyn í fyrirsögn eða myndatexta en kemur fram í sjálfum fréttatextanum. Þannig hafa menn í raun sagt rétt frá en þó ekki. Þegar ofangreind fréttakynning Ríkissjónvarpsins á miðvikudaginn í síðustu viku er lesin – og ekki síst þegar á hana var hlýtt – er vart hægt að skilja hana á annan veg en að í kjölfar birtingar á álagningarskrám streymi inn gagnlegar ábendingar frá almenningi um skattsvik sem séu teknar til rannsóknar.

Þegar svo hlustað er á sjálft viðtalið við skattrannsóknarstjórann kemur nokkuð annað upp úr dúrnum. Hinir gagnlegu ábendingar frá almenningi eru ekki beinlínis frá almenningi heldur oftast samkeppnisaðilum eða fyrrverandi starfsmönnum fyrirtækja og koma birtingu álagningarskrár ekkert við. Þær eru sumsé ekki vegna birtingar álagningarskrár heldur vegna þess að samkeppnisaðili telur sig verða fyrir ósanngjarnri samkeppni frá öðru fyrirtæki sem svíkst um að innheimta virðisaukaskatt. Eða fyrrverandi starfsmenn fyrirtækja vita hreinlega um slíkt og tilkynna það skattyfirvöldum. Álagningarskráin er þessu óviðkomandi.

En svo í lok viðtalsins var skattrannsóknarstjóri einmitt spurður um hvaða áhrif birting álagningarskrárinnar hafi. Hann svaraði svo: „Meðal annars koma töluvert af ábendingum hingað og væntanlega til skattstjóra um aðila sem taldir eru þarfnast athugunar við í kjölfar þessarar birtingar og menn mega heldur ekki gleyma því að birtingin sjálf er líkleg til þess að menn hugsi sig að minnsta kosti tvisvar um áður en þeir tilgreini mjög lágar fjárhæðir ef þeir geta ráðið því á annað borð.“

Hvað þýðir þetta eiginlega? Að minnsta kosti ekki að í kjölfar birtingar skattskrár hafi ábendingar frá almenningi „oft leitt til rannsóknar á umfangsmiklum skattsvikum“. Það varðaði allt annað mál. Hvort eitthvert vit sé í þessum ábendingum vegna álagningarskrár og þær leiði til uppljóstrana á einhverjum skattsvikum sem ekki hefðu verið upplýst ella kemur ekki fram í viðtalinu við skattrannsóknarstjóra.

Og skattrannsóknarstjóri telur að vegna birtingar álagninarskrár hugsi menn sig „líklega“ tvisvar um áður en þeir gefa upp lágar tekjur. Gefum okkur svo að skattrannsóknarstjóri meti það rétt og segjum 10 þúsund framteljendur hugsi sig að minnsta kosti tvisvar um áður en þeir gefa upp of lágar tekjur. Réttlætir það birtingu álagningarskrár? Nei reyndar ekki. Hinir 200 þúsund framteljendurnir hafa ekki unnið til þessarar refsingar. Hóprefsingar af þessu tagi eiga ekki rétt á sér. Líklega myndu einhverjir hugsa sig tvisvar um áður en þeir lumbruðu á öðrum heimilismönnum ef bein útsending væri frá öllum heimilum á lýðnetinu en það réttlætir ekki slíkt brot á friðhelgi einkalífsins.