Ínýjasta tölublaði Skjaldar er rætt við Ara Trausta Guðmundsson, jarðeðlisfræðing og þúsundþjalasmið. Ari Trausti hefur víða komið við, þó flestum sé hann kunnastur sem höfundur fræðirita og sjónvarpsþátta. Hann var meðal annars kennari um áratugsskeið og í viðtalinu er hann spurður hvers vegna hann hafi horfið frá því starfi:
„Ég hafði ekki kennsluréttindi þar sem ég hafði ekki próf í uppeldis- og kennslufræðum en mér féll vel að kenna og tel að það próf sé ekki nauðsynlegt fyrir þá sem eru vel fallnir til kennslu. Með þessu var ég búinn að spila mig dálítið út í horn en ég hafði þó verið kennari í meira en áratug og þar af konrektor um hríð.“ |
Ari Trausti segir að hann hafi ákveðið að verða eigin herra, en hann hefði á þessum tíma unnið við ritstörf, þáttagerð og fararstjórn og þau störf orðið sífellt umfangsmeiri. En ekki þarf að efa að kennsluréttindaskorturinn hefur haft talsvert að segja, enda augljóst að hann myndi jafnan standa honum fyrir þrifum.
Mikilvægt er að einstrengingslegar „hæfisreglur“ verði ekki til þess að hæfir menn hrökklist frá kennslu. |
Samkvæmt lögum má enginn kalla sig framhaldsskólakennara nema hafa lokið meðal annars námi í því sem nefnt er kennslufræði til kennsluréttinda og skulu slíkir menn ganga fyrir um laus kennarastörf. Ekki má fastráða aðra en þá sem státa af þessu prófi og má einu gilda hversu hæfir til kennslu menn eru. Ef skólastjórnendur vilja ráða réttindalausan mann, þrátt fyrir að réttindamaður sæki um, þá er það afar torsótt og þarf að leita til sérstakrar undanþágunefndar vegna hvers tilviks. Sitja skólastjórnendur því oft uppi með kennara sem þeir ekki vilja en verða að vísa frá sér hæfu fólki – gjarnan fólki sem er með mikil próf í kennslugreininni sjálfri en hefur ekki lært kennslufræði.
Mætti Vefþjóðviljinn stinga upp á því við menntamálaráðherra að hann gerði nú nokkuð gagnlegt á síðustu mánuðum sínum í ráðuneytinu og léti hefja undirbúning að afnámi þessara ríku sérréttinda kennslufræðimanna og gerði skólastjórnendum þar með auðveldara að ráða til sín þá kennara sem þeir hafa mesta trú á. Auðvitað er ekkert við það að athuga að próf í þessari kennslufræði komi umsækjanda um kennarastarf til góða, rétt eins og önnur menntun hans og reynsla, en það er ekki nógu sniðugt að miðlungsmenn og verri gangi jafnan fyrir öllum öðrum fyrir það eitt að hafa haft fyrir því að verða sér út um þessa tilteknu gráðu.