Mikill munur er á málflutningi menntamálaráðherra og formanns fræðsluráðs Reykjavíkur þegar kemur að afstöðu til einkaskóla – og líklega fleiri málaflokka ef út í það er farið. Menntamálaráðherra, Tómas Ingi Olrich, flutti á fimmtudag ávarp á ráðstefnu Íslensku menntasamtakanna og sagði þar að einkaskólar gegndu nú mikilvægu hlutverki í íslensku menntakerfi og sagðist binda vonir við að hlutur þeirra færi vaxandi. Formaður fræðsluráðs Reykjavíkur, Stefán Jón Hafstein, lítur einkaskóla – eða svonefnda einkaskóla eins og hann kýs jafnan að kalla þá – talsvert öðrum augum. Í verki hefur hann og R-listinn reynt að kreista lífið úr einkaskólum borgarinnar og orði sýnir hann minni en engan áhuga á að einkaskólar fái að dafna í borginni. Hann lítur svo á að með því að hafa einkaskóla aukist kostnaður borgarinnar og hann og R-listinn eru líka á móti því að „búa til tvöfalt grunnskólakerfi í borginni“, eins og þeir kalla það að hafa í Reykjavík bæði einkaskóla og skóla borgarinnar.
Þegar áhugi á einkarekstri í skólakerfinu er öfugu megin við frostmarkið eins og innan R-listans er ekki við því að búast að einkaskólar verði stofnaðir eða að þeir sem fyrir eru fái að dafna eðlilega. Það er ekki heldur við því að búast að nokkur frjó hugsun eða nýmæli verði til þegar kerfið er aðalatriðið og öll áhersla lögð á að verja það. Ef menn líta svo á að kerfið sé heilagt gera þeir auðvitað allt til að raska ekki ró þess og þá er skiljanleg sú andúð sem einkaskólar í Reykjavík hafa orðið fyrir. En það að kerfisþrælar hræðist breytingar þýðir ekki að þær séu hættulegar. Það er vitaskuld fjarstæða að rekstur einkaskóla sé dýrari en rekstur skóla á vegum borgarinnar. Borgaryfirvöld gætu þvert á móti sparað útsvars- og holræsagjaldsgreiðendum verulegar fjárhæðir með því að fela einkaaðilum rekstur grunnskólanna. Og það er ekki bara að fé myndi sparast, þjónustan myndi líka batna ef í borginni væru einkaskólar sem kepptust við að veita sem besta þjónustu og mesta menntun. En þetta hafa vinstri menn aldrei skilið, ekki heldur þessir nýju og nútímalegu, svo engin von er til að þeir muni nokkru sinni gera breytingar í rétta átt í menntamálum.
Af þessum sökum væri full ástæða fyrir menntamálaráðherra, sem eins og fram hefur komið hefur afar ólíka sýn á einkaskóla en R-listinn, að beita sér fyrir breyttum reglum til að auðvelda stofnun einkaskóla og gera þeim betur kleift að keppa við opinberu skólana.