Það hefur verið helst í fréttum undanfarna daga – það er að segja á eftir nákvæmri tímasetningu hugsanlegrar afsagnar forseta Líberíu – að tónlistarnám utanbæjarmanna í Reykjavík sé „í uppnámi“. Borgaryfirvöld munu nefnilega hafa fengið nóg af því að útsvarsgreiðendur í Reykjavík greiði fyrir tónlistarnám utanbæjarfólks og hyggjast einbeita sér að því að styðja við tónlistarnám Reykvíkinga. Þessu vilja hinir ekki una og krefjast þess að það verði tryggt að þeir geti haldið áfram tónlistarnámi á annarra kostnað. Einhverjir þeirra hafa reyndar fundið einfaldari lausn og tilkynnt hagstofu um nýtt lögheimili í Reykjavík og ef fleiri fara þá leið þá mun það auka mjög annríki á hagstofunni á næstunni og var ekki á það bætandi, með SUS-þing yfirvofandi í haust.
Það er skiljanlegt að borgaryfirvöld kunni því illa að reykvískum útsvarsgreiðendum sé gert að fjármagna tónlistarnám fólks úr öðrum sveitarfélögum. En mætti Vefþjóðviljinn þá ganga lengra og bæta því við að það sé einfaldlega óeðlilegt að menn séu neyddir til að greiða tónlistarnám annarra, hvar sem hver býr. Það eigi einfaldlega að vera einkamál hvers og eins hvort hann ákveður að læra á hljóðfæri, hann eigi að ráða því sjálfur og hann eigi ekki heldur að geta krafið aðra um greiðslu á reikningnum fyrir því. Mörgum þykir sem nú á dögum geti enginn komist af til lengdar án þess að vera bæði læs og skrifandi og svo framvegis. En þó þetta ogsvo framvegis sé hæfilega óskýrt þá er hljóðfærasláttur og nótnalestur langt utan við það sem með nokkurri sanngirni verður sagt að hver maður þurfi að kunna skil á. Þeir sem vilja leika á hljóðfæri sér til ánægju – eða vilja að krakkarnir sínir leiki á hljóðfæri, jafnvel engum til ánægju – þeir eiga einfaldlega að greiða fyrir það sjálfir. Og breytir engu um það þó eitthvert brot af þessu fólki kæmist síðar á það stig að geta farið að spila öðrum til ánægju.
En verður tónlistarnám þá ekki að forréttindum efnafólks? Auðvitað má alltaf spyrja slíkra spurninga þegar hvatt er til þess að hætt verði að fjármagna einhverjar séróskir með nauðungargjöldum annarra. En þeir sem berjast fyrir því að ríki og sveitarfélög dragi sig út af einhverju sviði, þeir berjast væntanlega einnig fyrir því að skattar verði lækkaðir að sama skapi. Allt fé, sem hið opinbera eyðir, hefur það áður tekið af skattgreiðendum. Það að hið opinbera hætti að taka fé af skattgreiðendum verður þá til þess að þeir hafa sjálfir það fé til ráðstöfunar. Það er mikill munur á því hvort menn eru í raun að ráðstafa eigin fé með þeim hætti sem þeim sjálfum sýnist skynsamlegur, eða hvort þeir þræða bara niðurgreidda starfsemi og ærast svo í hvert skipti sem einhver reynir að tala máli annarra skattgreiðenda. Ef hið opinbera hætti að niðurgreiða tónlistarnám en léti féð til þess óáreitt í vösum skattgreiðenda þá gætu þeir sjálfir ákveðið hvort þeir verðu því til tónlistarnáms, eigin og annarra, eða hvort þeir keyptu eitthvað annað sem þeir teldu sig vanhaga meira um.