Laugardagur 26. júlí 2003

207. tbl. 7. árg.

R

Her er eitt af þeim fyrirbærum sem einkaaðiliar geta rekið – og reka nú þegar.

íkið er að sumra áliti – líklega að flestra áliti – ómissandi á sumum sviðum þjóðlífsins. Misjafnt er hve langt menn vilja að ríkið teygi sig; sumir vilja ríkisvæða nær allt, en aðrir vilja helst hvergi sjá nokkur merki um ríkisafskipti. Líklegt má telja að jafnvel margir helstu andstæðingar ríkisrekstrar og ríkisafskipta eigi þó erfitt með að sjá það fyrir sér að ríkið geti hætt að sinna þáttum á borð við löggæslu og landvarnir. Lögregla og her eru meðal helstu dæma sem nefnd eru sem lágmarkshlutverk ríkisins og vissulega má fullyrða að hafi ríkið nokkurt hlutverk felist það að minnsta kosti í því að vernda borgarana gegn áreiti eða árás, hvort sem er af hendi innlendra manna eða erlendra.

En hernaður er eins og svo margt annað, ríkið getur staðið straum af kostnaði við hann án þess að reka herinn sjálft. Ríkið getur samið við fyrirtæki sem sérhæfa sig í þjónustu á þessu sviði, en svo undarlega sem það kann að hljóma þá eru starfandi fyrirtæki á þessu sviði eins og flestum öðrum sviðum mannlífsins. Eitt þessara fyrirtækja bauðst í síðasta mánuði til að fara inn í Líberíu og handtaka þar Charles Taylor, sem haldið hefur Líberíu og nágrannríkjunum í heljargreipum árum saman. Dómstóll sem Sameinuðu þjóðirnar eiga aðild að hafði ekkert á móti því að fyrirtækið næði í Taylor, en dómstóllinn vildi ekki fjármagna aðgerðina og því varð ekkert af henni. Nú hefur þetta fyrirtæki boðist til að senda 500 til 2.000 manna vopnaða sveit inn í Líberíu til að stöðva ógnaröldina sem þar ríkir, en þótt forsvarsmenn fyrirtækisins segi að kostnaðurinn yrði aðeins brot af því sem það myndi kosta að senda bandarískan her inn í landið hefur fjármagn ekki fengist til verksins.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hugmyndir koma upp um að Sameinuðu þjóðirnar nýti sér aðstoð einkarekinna hersveita. Kofi Annan hugleiddi fyrir fimm árum að nota einkafyrirtæki til að hindra ofbeldi í Rúanda, en hætti við því hann taldi að heimurinn væri „ef til vill ekki tilbúinn til að einkavæða friðinn“. En hver veit nema heimurinn sé reiðubúnari til þess nú, og ef einkaherir geta leyst brýn verkefni með minni tilkostnaði en ríkisherir þá getur verið full ástæða til að nýta þjónustu þeirra. Það þarf ekki aðeins að eiga við um fjarlæg lönd þar sem stöðva þarf blóðsúthellingar og koma á stöðugleika, það getur líka átt við um landvarnir þar sem ekki ríkir vargöld en nauðsynlegt er að tryggja öryggið.