Fyrr í vikunni sátu í Kastljósi Ríkissjónvarpsins þingmennirnir Pétur Blöndal og Jóhanna Sigurðardóttir og ræddu hvort þeir sem eru í fæðingarorlofi eigi um leið að vinna sér inn orlofsrétt svo þeir geti skellt sér í orlof þegar þeir koma úr fæðingarorlofinu. Þetta var eitt af þeim atriðum sem bent var á að væru óljós þegar ný lög um fæðingarorlof voru keyrð í gegnum Alþingi á mettíma vorið 2000. Um fleiri hugsanlega misnotkunarmöguleika á þessu nýja bótakerfi mátti lesa í skýrslu Andríkis um málið áður en lögin voru samþykkt.
Orlof ofan á fæðingarorlofið myndi hækka kostnað við fæðingarorlofið úr 5 milljörðum króna á ári í 5,5 milljarða. Geir H. Haarde fjármálaráðherra hélt því fram þegar ný lög um fæðingarorlofið voru samþykkt fyrir þremur árum að kostnaðurinn yrði 3,5 milljarðar á ári þegar lögin hefðu að fullu tekið gildi á árinu 2003. Fyrir tíð nýju laganna var kostnaðurinn um 2 milljarðar króna á ári. Kostnaðaraukningin varð því ekki 1,5 milljarður eins og Geir H. Haarde hélt að mönnum heldur 3 milljarðar. Framúrkeyrslan er sumsé nú þegar um 100% enda stefnir í að fæðingarorlofssjóður verði orðinn tómur strax á næsta ári þrátt fyrir að fjármálaráðherrann hafi þegar hækkað tryggingagjaldið (sem er skattur á öll laun) um 10% til að fjármagna þessa mestu varanlegu útgjaldaaukningu ríkisins í manna minnum.
En þarna sátu þau Jóhanna og Pétur og kepptust um að vega að hagsmunum skattgreiðenda. Jóhanna vill að allir fái skilyrðislaust orlof ofan á fæðingarorlof og Pétur telur fráleitt að setja þak á þær bætur sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir til þeirra sem eru í fæðingarorlofi. Máli sínu til stuðnings nefndi hann að maður sem er með 700 þúsund krónur í mánaðarlaun myndi ekki hafa efni á að fara í fæðingarorlof ef hann fengi aðeins 350 þúsund krónur á mánuði í styrk frá ríkinu á meðan því stæði. Já hugsiði ykkur hvílíkt áfall það væri fyrir mann að þurfa að sinna barninu sínu fyrir aðeins 350 þúsund á mánuði. Og fá svo kannski ekki orlof eftir að hafa verið í fæðingarorlofi upp á svona skít og kanil.
Hvernig færi fyrir velferðarkerfinu ef Pétur Blöndal og Jóhanna Sigurðardóttir stæðu ekki vörð um hagmuni þeirra sem minnst mega sín?