Ö
Sala Sements- verksmiðjunnar er nýjasta dæmið um jákvæða þróun síðustu ára. |
ll hlutabréf í fyrirtækinu eru í eigu ríkisins“, segir á heimasíðu Sementsverksmiðjunnar hf., en þessari staðhæfingu verður væntanlega breytt um næstu mánaðamót þegar Íslenskt sement ehf. eignast hlutabréfin. Sala Sementsverksmiðjunnar er enn einn áfanginn á þeirri leið að losa ríkið út úr fyrirtækjarekstri, en sala ríkisfyrirtækja hefur gengið býsna vel á síðustu árum og margt hefur verið selt, bæði stórt og smátt. Stærstu og mikilvægustu áfangarnir á síðustu fjórum árum eru án vafa sala ríkisbankanna, þ.e. salan á Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, sem settur var saman úr nokkrum lánasjóðum ríkisins, og salan á Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. En margt smærra hefur einnig verið selt, svo sem Íslenska menntanetið, Kísiliðjan, Steinullarverksmiðjan, Íslenskir aðalverktakar, og nú Sementsverksmiðjan.
Sú mikla einkavæðing sem fram hefur farið hér á landi síðast liðinn áratug eða svo hefur gerbreytt efnahags- og atvinnulífi landsmanna. Í stað þess að vera eftirbátur annarra ríkja er efnahagslífið á Íslandi nú til fyrirmyndar og fær hrós frá þeim alþjóðlegu stofnunum sem leggja mat á efnahagsaðstæður ríkja heims. Einkavæðing og aukið frelsi á fjármagnsmarkaði á verulegan þátt í árangrinum, en þó má ekki gleyma öðrum þáttum. Það einstaka atriði, fyrir utan frelsi á fjármagnsmarkaði og einkavæðingu, sem líklega hefur skipt hvað mestu máli um að efnahags- og atvinnulíf á Íslandi hefur þróast í rétta átt, er kvótakerfið í sjávarútvegi. Með framseljanlegum kvótum hefur tekist að koma í veg fyrir að sjávarútvegurinn yrði byrði á þjóðinni líkt og víða annars staðar. Þess í stað skapar hann verðmæti og stuðlar að bættum lífskjörum.
Þeir eru margir sem skilja ekki þá þróun sem orðið hefur á síðustu árum og telja að á henni séu einhverjar allt aðrar skýringar en þær sem hér eru nefndar. Sumir þeirra telja að árangur í efnahagsmálum sé eingöngu aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu að þakka. Einhverjir þeirra, eins og fyrrum helsti talsmaður Samfylkingarinnar, voru að vísu ekki hlynntir EES þegar þeir höfðu um það val, en vilja nú skýra árangurinn með því frekar en að samþykkja það sem hér er nefnt. Aðrir virðast álíta að árangurinn sé einhver tilviljun og standa fast gegn öllum breytingum. Þetta á sérstaklega við um formælendur vinstri grænna, sem gráta það nú að ríkið skuli ekki lengur vilja reka sementsverksmiðju.
Þegar einn áfangi enn er stiginn í átt til heilbrigðara efnahags- og atvinnulífs er hollt að minnast þeirra sem ævinlega, eða að minnsta kosti yfirleitt, hafa þvælst fyrir og reynt að hindra að rétt skref væru stigin. Flesta þessa menn er að finna í núverandi og fyrrverandi þingflokkum vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Þeir hafa, ýmist vegna misskilnings um gang efnahagslífsins eða í pólitískum tilgangi, fundið áformum um jákvæðar breytingar allt til foráttu. Hvor skýringin sem við á gerir þessa menn jafn varhugaverða stjórnmálamenn.