Þriðjudagur 8. júlí 2003

189. tbl. 7. árg.
Ríkið er goðsögnin mikla um að allir geti lifað á kostnað annarra.
 – Frédéric Bastiat

Þau eru einföld og áhrifarík rökin sem Framsóknarmenn færa þessa dagana fyrir auknum umsvifum ríkisins á fjármálamarkaði. Í stuttu máli sagt: Lán sem ríkið veitir eru hagstæðari en gerist og gengur á almennum markaði! Á fundi sem haldinn var skömmu fyrir kosningar í byrjun maí kynntu Framsóknarmenn tillögur um 90% húsnæðislán með þeim rökum að heimilin í landinu væru með 60 milljarða króna í yfirdrátt í bönkum og greiddu af þessum skammtímalánum himinháa vexti. Með því að veita fólki 90% húsnæðislán gæti það losað sig við yfirdráttarlánin. Framsóknarmenn vilja með öðrum orðum að ríkið niðurgreiði og ábyrgist yfirdráttarlán almennings – þjóðnýti neyslulánin. Fréttir af þessum fundi mátti lesa í Morgunblaðinu 3. maí og hefur sjálfsagt fallið vel í kramið á ýmsum bæjum að fram væri kominn stjórnmálaflokkur rétt fyrir kosningar sem vildi losa almenning við yfirdráttinn. Þar sem engin einkarekin fjármálastofnun með fullu viti myndi lána fólki á svo lágum vöxtum gegn svo hárri veðsetningu ætlar Framsóknarflokkurinn að láta ríkissjóð hlaupa undir bagga. Þetta er gamalt framsóknarbragð þótt því hafi aðallega verið beitt á einstök fyrirtæki og atvinnugreinar fram til þessa.

Hvað með öll bílalánin, spyr Vefþjóðviljinn, sem eru með hærri vexti en húsbréfalán? Ætli séu ekki nokkrir milljarðar þar á alltof háum vöxtum? Væri ekki hægt að bæta líf hins almenna manns þokkalega með því að hafa niðurgreiddu húsnæðislánin 100%? Þá gæti hann losað sig við bílalánin og notið hinna hagstæðu lánakjara ríkisins. Og hvað alla raðgreiðslusamningana? Ef húsnæðislánin væru 110% gætu menn endurnýjað fellihýsið og gert betur við sig á Benidorm án þess að verða áskrifendur að háum kreditkortareikningum.

Og svo eru það vaxtabæturnar sem eru enn frekari niðurgreiðsla á kostnaði við lántöku. Vaxtabæturnar refsa fólki nú þegar fyrir að fjármagna húsnæðiskaup með eigin sparnaði en þegar Framsóknarflokkurinn verður farinn að bjóða um eða yfir hundrað prósent lán verður auðvitað alls engin ástæða til að huga að eigin sparnaði. Það er og verður hagstæðara fyrir fólk að taka eins mikil lán og mögulegt er í stað þess að nota eigin fjármuni til kaupanna. Þeir sem taka viðbótarlán Framsóknarflokksins fá auðvitað hærri vaxtabætur en áður.

Þegar menn hugsa um öll þau þægindi sem fjármálasení Framsóknarflokksins bjóðast til að veita, eins gott og það er nú að orna sér við tilhugsunina, er líka hollt að velta því fyrir sér hver borgar þetta eiginlega. Kannski venjulegir skattgreiðendur, hinn almenni maður, hafi eitthvað með það að gera.