H
Þrátt fyrir háan aldur dregur hinn geðþekki Fídel Kastró hvergi af sér í þeirri viðleitni sinni að fullnýta fangelsi Kúbu. |
æstiréttur Kúbu hélt sýndarréttarhöld yfir fjölda andófsmanna í fyrradag og staðfesti fangelsisdóma þeirra. Alls eru hinir „seku“ 50 talsins samkvæmt hæstarétti Kúbu og 25 til viðbótar bíða staðfestingar dóms síns í undirrétti, en undirréttur kvað í apríl upp 6 til 28 ára fangelsisdóma yfir 75 andófsmönnum sem handteknir voru í mars. Dómarnir sem þegar hafa verið kveðnir upp eru að meðaltali 19 ára fangelsi og „glæpirnir“ munu vera samsæri með Bandaríkjunum um að fella stjórnvöld í þessu sæluríki sósíalismans. Samsærið felst meðal annars í því að veita erlendum fjölmiðlum viðtöl og að senda upplýsingar til Amnesty International. Einn hinna dæmdu er skáldið og blaðamaðurinn Raul Rivero, sem hefur það til saka unnið að hafa látið í ljós skoðun sína á stjórnvöldum og fær því að gista í glæsilegum fangelsum eyjunnar í 20 ár og njóta þess góða aðbúnaðar sem þau eru þekkt fyrir. Aðbúnaðurinn felst meðal annars í einkaklefa þar sem enginn fær að ónáða andófsmennina og þeir geta stundað innhverfa íhugun allan sólarhringinn óáreittir – nema að vísu þegar stjórnvöld kjósa að senda starfsmenn sína til að áreita þá.
Andófsmenn á Kúbu hafa leyft sér að eiga samskipti við sendiráðsstarfsmenn annarra ríkja, meðal annars ríkja Evrópu. Ríki Evrópu og fleiri ríki hafa enda mótmælt þessum nýjustu ofsóknunum gegn andófsmönnunum og Evrópusambandið hefur tilkynnt að það hyggist endurskoða stefnu sína varðandi Kúbu. Mótmæli erlendra ríkja hafa þó litlu skilað, helst því að mannvinurinn – eða að minnsta kosti vinur ýmissa íslenskra vinstri manna sem farið hafa í pílagrímsferðir til Kúbu – Fídel Kastró, hefur hótað því að herða enn aðgerðir sínar gegn gagnrýnendum og að varpa fleirum þeirra í fangelsi.
Árið 1970 voru harðstjórar við völd í 17 af 26 ríkjum rómönsku Ameríku og Karabíska hafsins, en nú er Kúba ein eftir. Ólíklegt er að eyjarskeggjar kynnist eðlilegum stjórnarháttum á næstunni, að minnsta ekki kosti meðan hinn 76 ára gamli Kastró tórir, en hann hefur stjórnað Kúbu með harðri hendi í 44 ár og sýnir ekki á sér nokkurt fararsnið.