Jæja Björn, hvar eru óvinirnir, ha? Eru Danir kannski að leggja á ráð um að koma hingað og höggva Karl Sigurbjörnsson? Hahaha. Nú þegar umræða um varnir Íslands hefur orðið áberandi að nýju, í framhaldi af viðræðum íslenskra og bandarískra embættismanna um framhald varnarsamstarfs ríkjanna, hafa hefðbundnir andstæðingar varnarliðsins í Keflavík færst í aukana eins og búast mátti við. Á árum áður beittu þeir mjög þeirri röksemd að hér mætti ekki vera herstöð því hún laðaði að sér óvini og mun öruggara væri fyrir Íslendinga að vera einfaldlega varnarlausir. „Herstöð er skotmark!“ sögðu þeir og töldu að svo lengi sem á Íslandi væri enginn her myndi ekkert ríki telja sig eiga erindi hingað á ófriðartímum. Hvað um það, þetta var kenningin í þá daga. Nú hins vegar er annarri röksemd beitt. Nú eru það ekki líkurnar á árás sem eiga að rökstyðja það að best sé að landið sé varnarlaust heldur einmitt hið gagnstæða. Nú eru víst ekki nægilega miklar líkur á árás til að það sé rétt að hafa hér varnarlið. „Hver er eiginlega óvinurinn? Hverjum er verið að verjast?“
Sumir hafa í meira en mannsaldur háð þessa baráttu; baráttuna fyrir því að Ísland verði lýst varnarlaust. Fyrst með þeim rökum að ekki væri rétt að styggja óvininn með því að vera viðbúinn því að verjast honum. Svo með því að segja að varnarsinnar hafi ekki bent á óvinaríkið, og þá helst með upplýsingum um legu þess, flatarmál, höfuðborg og lengstu ár. En af hverju vill fólk að landið sé varið? Sumum finnst það áleitin spurning og miklu meira áríðandi heldur en hin sem sjaldnar er spurt, sú hvað fái suma til að telja varnarleysið keppikefli. En hvað um það, hugsum ekki um það að sinni, höldum okkur við þá spurningu af hverju fjölmargir vilja að landið sé varið.
Skýringin á því er ekki sú að þeim hafi borist njósn af yfirvofandi erlendri innrás. Að danski herinn sé á leiðinni hingað til að gera upp reikningana við hraðskilnaðarmenn. Skýringin er í sem allra stystu máli sú að menn vilja hafa vaðið fyrir neðan sig. Það er einfaldlega svo að fjölmörgum þykir sem ríki hafi ekkert hlutverk brýnna en það að tryggja öryggi borgaranna. Öll nágrannalönd Íslands gera ráðstafanir til að geta varið sig ef í það fer. Hin friðsömu Norðurlönd eiga sína heri og það er ekki vegna þess að þau telji sig eiga sérstakan óvin sem benda megi á með ópum. Norski herinn er ekki að hugsa um það alla daga að selja sig nú dýrt þegar Svíarnir koma. Danir halda ekki úti her vegna þess að þeim sé kunnugt um að Finnar horfi til þeirra gráðugum augum. Belgar eru ekki sérstaklega að hugsa um að reyna nú einu sinni að standa í Þjóðverjunum nægilega lengi til að Frakkar nái að gefast upp af þeim virðuleik sem slíkri stórþjóð sæmir. Ekkert þessara landa getur bent á neinn tiltekinn óvinaher sem búast megi við á hverri stundu. Engu að síður vilja þau geta varið sig ef á þarf að halda. Sem ekkert þeirra býst sérstaklega við að nokkurn tíma verði. Land þarf ekki að eiga tiltekinn óvin til að það opni ekki gáttir sínar fyrir hverjum sem hafa vill. Land gerir einfaldlega ráðstafanir til að tryggja öryggi íbúanna.