Mánudagur 14. apríl 2003

104. tbl. 7. árg.
„Sama ríkis[s]tjórn, sömu flokkar, sömu stjórnunaraðferðir, hafa deilt og drottnað á Íslandi í heilan áratug.“
 – Ellert B. Schram fyrrverandi alþingismaður og núverandi vonarpeningur, í grein í Vesturbæjarblaðinu, apríl 2003.

Er þetta ekki dæmigert? Stundum er oft haft á orði að í kosningabaráttu megi nokkuð vel mæla það hversu stjórnvöld á hverjum tíma standa sig, eftir því hve fljótt andstæðingar þeirra taka að halda því fram að það sé rétt að skipta um stjórn vegna þess hve lengi sú fyrri hafi setið. Hugsunin að baki þessari kenningu er vitaskuld sú, að hafi stjórnvöld farið illa að ráði sínu, þá hafi stjórnarandstaðan fjölmargt efnislegt að segja. Hagur ríkisins hefur þá kannski versnað, kjör rýrnað, atvinnuleysi orðið geysilegt, verðbólga farið úr böndum eða skuldir ríkissjóðs aukist verulega. Við slíkar aðstæður hefur stjórnarandstaðan úr nægu að moða og getur bent á fjölmargt sem hún getur að minnsta kosti þóst hafa getað gert betur. Við þær aðstæður að stjórnvöld hafa staðið sig illa, dettur engum manni í hug að berjast gegn þeim með þeim rökum að það sé bara „kominn tími“ til að breyta. Það er ekki nema að stjórnvöld hafi staðið sig vel sem þær röksemdir heyrast. Víða er sagt að staðhæfingin „Stjörnvöld hafa setið of lengi“ sé aðeins annað orðalag yfir: „Og nú höfum við ekki fleira til að gagnrýna“.

Þessar kenningar verða nú ekki ósennilegri þegar hlustað er á breytingasíbyljuna sem gengur upp úr ákveðnum frambjóðendum og málpípum Samfylkingarinnar þessa dagana, og er Ellert B. Schram viðeigandi fulltrúi þeirra. En þau orð í blaðagrein Ellerts B. Schrams sem vitnað var til hér að ofan mega einnig vera lítið dæmi um málflutninginn og vinnubrögðin á þeim bænum. Það er, eins og forsætisráðherra benti á í sjónvarpsumræðum í gærkvöldi, jafnan bara eitthvað fullyrt og svo dregnar ályktanir út af fullyrðingunum. Ekki það að tilvitnuð orð Ellerts skipti neinu sérstöku máli, þá er í þeim lítið en lýsandi dæmi. Sama ríkisstjórn hefur setið hér „í heilan áratug“ segir Ellert bara, svona af því að gömlum pópúlista og skrumara hefur þótt það hljóma vel. Ekki „lengi“, ekki „bráðum áratug“, ekki „næstum 10 ár“, nei nei, „í heilan áratug“. Þegar grein Ellerts birtist þá hafði stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks staðið í 7 ár og 343 daga. Þetta segir auðvitað ekkert um réttmæti eða rangmæti þeirrar kenningar að það sé lýðræðisleg nauðsyn að núverandi stjórnarandstöðu verið komið að völdum, en er dæmi um nákvæmnina í fullyrðingaflaumum Samfylkingarmanna sem nú virðast gera þá eina kröfu til eigin málflutnins að hann hljómi vel.

En það er ekki aðeins að þeir sem láta eins og þeim þyki lýðræðisleg nauðsyn á stjórnarskiptum séu með því að lýsa því yfir að þeir hafi í raun ekkert sérstakt við núverandi ríkisstjórn að athuga. Þessar kenningar eru einfaldlega misskilningur. Það er ekki svo að hér hafi setið ríkisstjórn óslitið í áratug eða lengur. Það eru haldnar kosningar á fjögurra ára fresti. Þetta er ekki stjórnskipunarleg athugasemd án annarrar þýðingar heldur staðreynd sem miklu máli skiptir. Það er nefnilega mikill munur á því að sitja í ríkisstjórn, og vita að verk ráðamanna eru borin undir kjósendur innan skamms, eða sitja við völd árum og áratugum saman og þurfa aldrei að standa neinum reikningsskil. Ef ráðamenn sitja í óratíma án kosninga, þá má vel vera að með tímanum gleymi þeir því að þeir eru í starfi á annarra vegum. En þegar ráðamenn þurfa að lúta reglulegum kosningum þá er augljóslega ólíklegra að skapist það hugarástand. Kannski hafa stjórnvöld ekki staðið sig vel og í boði er annar kostur sem reynast myndi betur, og þá er sjálfsagt að skipta. En það verður aldrei rökstutt með því einu að líta á dagatal og byrja að telja.

Yfir í annað en ekki alveg óskylt. Nú hefur verið boðað nýtt framboð manna sem telja sig hafa notið heldur minni frama en verðleikar þeirra kalla á, og hefur þetta framboð verið nefnt því ágæta nafni „Nýtt afl“, enda hafa forsvarsmenn þess flestir fært sönnur á afl sitt og almannahylli með því að falla og falla í hinum og þessum kosningum og prófkjörum í áranna rás. Má sennilega kalla forsvarsmenn „Nýs afls“ einu nafni „naflana“ enda hafa þeir margir þótt líta á sig sem nafla alheimsins og starfað sem slíkir innan fjölmargra stjórnmálaflokka. Ekki ber á öðru í málflutningi þeirra en þeir tali af meiri siðferðis- og „réttlætiskennd“ en flestir aðrir menn, lifandi og dauðir, og er þess eflaust skammt að bíða að þeir velji sér að einkunnarorðum lítið erindi eftir Örn Arnarson:

Mannúðin okkar manna
er mikil og dásamlig.
Við göngum svo langt í gæðum
að guð má vara sig.