Laugardagur 12. apríl 2003

102. tbl. 7. árg.

Félagi Castró – það er að segja félagi fyrrum talsmanns Samfylkingarinnar og fleiri ágætra Samfylkingarmanna sem fóru í pílagrímsferð til hans fyrir nokkrum árum – hefur staðið í ströngu þessa dagana. Hann hefur, líkt og félagar hans hér á landi, kosið að nýta sér átökin í Írak til að slá pólitískar keilur. Hann hefur að vísu ekki hugann við kosningar enda lætur hann þær ekki þvælast fyrir sér, heldur nýtir hann tækifærið á meðan athygli heimsins beinist að Írak til að hreinsa til heima fyrir. Hreinsanirnar felast í því að ráðast gegn andófsmönnum, sem hafa hætt sér út í að safna undirskriftum gegn harðstjóranum. Andófið var allt friðsamlegt og einungis krafist lýðræðislegri stjórnarhátta, en það hentar vitaskuld ekki manni sem nýtur ekki stuðnings landa sinna og neyðir upp á þá sósíalisma með tilheyrandi harðræði og skorti bæði á veraldlegum gæðum og frelsi til orðs og athafna.

Svo sérkennilegt sem það nú er, þá nýtur þessi harðsjóri talsverðrar samúðar meðal vinstri manna, bæði hér á landi og annars staðar á Vesturlöndum. Þeir finna til einhverrar furðulegrar samkenndar með honum og fyrir því eru tvær mögulegar ástæður. Önnur er sú að þeim líkar vel að hann er vinstra megin við miðju og heldur uppi merkjum sósíalismans, þó þeir vildu sjálfsagt fæstir búa við það stjórnarfar sem hann býður upp á. Hin er sameiginleg andúð þeirra og hans á Bandaríkjunum, en það er kunnara en frá þurfi að segja að vinstri menn setja sig aldrei úr færi að veitast að Bandaríkjunum, jafnvel þessir nútímalegu jafnaðarmenn sem hæst láta hér á landi.

Ef borið yrði upp á íslenska vinstri menn – nútímalega jafnaðarmenn eða gamaldags sósíalista – að þeir hefðu samúð með félaga sínum Castró, þá myndu þeir líklega hafna því með öllu. Það er hins vegar athyglisvert að enginn þeirra hefur séð ástæðu til að mótmæla nýjustu ofsóknum harðstjórans, ekki frekar en öðrum ofsóknum hans, og liggja þeir þó sjaldan á liði sínu þegar opinber mótmæli eru annars vegar.