Svo skemmtilega vildi til í gærkvöldi að fréttamenn Ríkissjónvarpsins voru einmitt staddir á framboðsfundi Ingibjargar Pandóru Gísladóttur í Kópavogi í gærkvöldi, þegar umræddur frambjóðandi í 5. sæti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður tilkynnti að hún skoraði hér með á formann Sjálfstæðisflokksins í kappræður um skattamál. Ríkissjónvarpið sagði vitaskuld þegar frá þessari miklu áskorun, strax í fréttatíma klukkan tíu um kvöldið, enda talsverður atburður á ferð. Og því er ekki að neita, það færi að vissu leyti vel á því að efnt yrði til skattaumræðna þessara tveggja ólíku stjórnmálamanna. Þar myndu nefnilega mætast andstæðir pólar skattamálanna. Reyndar er sennilegt að Ingibjörg Gróa telji forsætisráðherra helsta andstæðing sinn í skattamálum, því milli þeirra hefur staðið harðvítugt einvígi undanfarin ár. Þegar forsætisráðherra og ríkisstjórnin hafa beitt sér fyrir skattalækkun þá hafa Ingibjörg Pandóra Gísladóttir og R-listinn hlaupið til og aukið álögur á borgarbúa sem því nemur.
Forsætisráðherra og ríkisstjórnin stóðu fyrir lækkun tekjuskatts á almenna borgara. Um leið hækkaðu Ingibjörg Gróa og R-listinn útsvarið, og það þannig að borgararnir fengu aldrei skattalækkanirnar sem ríkisstjórnin hafði ætlað þeim og verkalýðshreyfingin miðað samninga sína við. Ríkisstjórnin lækkaði skatta á atvinnufyrirtækin í landinu verulega. Ingibjörg Pandóra og R-listinn lögðu þá á þau ný og kostnaðarsöm gjöld. Þegar fyrirtækin hafa meira aflögu til uppbyggingar, fjárfestingar og launagreiðslna vegna lækkandi skatta til ríkisins, þá koma Ingibjörg Pandóra, Helgi Hjörvar og þau og leggja sorphirðugjöld, heilbrigðisgjöld og sennilega töðugjöld næst. Meira að segja þeir borgarar sem leyfa sér þann lúxus að hafa svo kallað salerni í húsum sínum – en með því má hiklaust mæla – þeir eru skattlagðir sérstaklega eftir að Ingibjörg Pandóra tók við völdum í Reykjavík. Og á sama tíma og allt þetta hefur gerst hefur ríkið greitt niður skuldir sínar en Reykjavíkurborg aukið sínar gríðarlega. En svo öllu sé samt til skila haldið þá er skylt að taka fram að borgaryfirvöld hafa ákveðið að snúa til baka af eyðslubrautinni og hafa í því skyni lækkað framlag sitt til Mæðrastyrksnefndar um 250 þúsund krónur. Sem að vísu er 750 þúsund króna hækkun eins og Þórálfur Árnason hefur réttilega bent á.