Mánudagur 10. mars 2003

69. tbl. 7. árg.

ODags B. Eggertssonar sérvalins borgarfulltrúa Ingibjargar Gróu Gísladóttur eru þannig að nauðsynlegt er að deila í þau með að minnsta kosti fimm áður en hið rétta fæst út. Þannig nefndi Dagur til að mynda í sjónvarpsþætti í gær að hæstaréttardómari nokkur í frægu áfengiskaupamáli hefði keypt 11.000 áfengisflöskur, sem er rétt ef menn gæta sín að deila í töluna með rúmlega fimm áður en þeir trúa Degi. Önnur tala sem borgarfulltrúi Ingibjargar Gróu nefndi í þættinum er talan 7, en Ingibjörg og Dagur halda því fram að í greinarflokki Agnesar Bragadóttur í Morgunblaðinu um átök í viðskiptalífinu hafi sjö sinnum komið fyrir að forsætisráðherra hafi haft afskipti af viðskiptum milli manna. Sá kostur er við að vitna sífellt til þessara greina Agnesar að fæstir landsmenn hafa lesið greinarnar, enda greinarnar bæði margar, langar og auk þess utan við áhugasvið flestra manna. Þeir sem hafa svo einkennilegt áhugamál að hafa þó varið dýrmætum tíma sínum í að þrælast í gegnum greinarnar, verða vafalítið nokkuð hissa á þessari tölu, sjö. Það er nefnilega þannig að þegar greinarnar eru lesnar í gegn er afar fjarri því að lesandinn fái á tilfinninguna að afskipti stjórnvalda, hvort sem er í heild eða einstakra manna, hafi verið mikil af þeim málum sem þar er fjallað um. Þvert á móti voru átökin greinilega viðskiptalegs eðlis og pólitík blandaðist ekki þar inn í.

Á þessu er þó sú undantekning að í fyrstu greininni er meðal annars fjallað um sölu ríkisins á FBA og þá fer ekki hjá því að stjórnvöld eru nefnd á nafn. „Afskiptin“ einskorðast hins vegar við það að verið er að selja ríkisbanka verið er að draga úr áhrifum stjórnmálamanna og snerta þar fyrir utan þá skoðun seljandans að best fari á því að bankinn lendi í höndum margra en ekki fárra. Þessi pólitíska skoðun kemur fram í fyrstu greininni en ekki eru nefnd dæmi um óeðlileg afskipti, hvorki í tengslum við þessa skoðun eða annað.

Dagur tók í þættinum eitt dæmi máli sínu til stuðnings, sem stafar sennilega af því að hann fann ekkert annað dæmi sem hann taldi sig geta hangið á. Í þessu dæmi, sem birtist í annarri greininni, er nefnt að Agnes telji að einn einstaklingur hafi fengið skilaboð í gegnum einhverja aðra að það „félli ekki í pólitískt kram stjórnarráðsins, ef hann yrði til þess að fella sitjandi meirihluta bankaráðs Íslandsbanka“. Fram kom að þeir sem hafi rætt við þann sem hugðist bjóða sig fram, en ekki segir hverjir þeir eru, hafi talið að forsætisráðherra myndi ekki hugnast að náinn samstarfsmaður Jóns Ólafssonar yrði oddamaður bankaráðsins. Þá segir einnig í tengslum við kaupin á FBA, að þessi sami Jón Ólafsson hafi talið líklegt að áhrifamenn í viðskiptalífinu og Sjálfstæðisflokknum litu það hornauga ef hann eignaðist mjög stóran hlut í FBA. Nú kann að vera að Jón Ólafsson hafi talið þetta vera skoðun forsætisráðherra, en ekki er með neinum hætti sýnt fram á að svo hafi verið í raun, nema þá ef til vill með vísan til þeirra almennu sjónarmiða að æskilegt væri að bankinn væri í dreifðri eign.

Einungis eitt dæmi er nefnt í greinum Agnesar um bein afskipti forsætisráðherra og það er í þriðju grein hennar. Þar er sagt frá því að forsætisráðherra hafi lýst þeirri skoðun sinni við formann einkavæðingarnefndar að ekki færi vel á því að gegna stjórnarformennsku í Tryggingamiðstöðinni samhliða störfunum fyrir einkavæðingarnefnd. Í þessu tilviki fer þó fjarri því að forsætisráðherra sé að grípa með óeðlilegum hætti inn í viðskiptalífið. Miklu nær er að halda því fram að óæskilegt sé að formaður einkavæðingarnefndar sé á sama tíma stjórnarformaður í svo umsvifamiklu fyrirtæki á íslenska markaðnum sem Tryggingamiðstöðin er og að eðlilegt sé að forsætisráðherra geri slíka athugasemd. Með þessu var forsætisráðherra frekar að draga úr óeðlilegum tengslum stjórnmála og viðskiptalífs en að hafa afskipti, eins og Dagur og Ingibjörg Gróa vilja vera láta.

Í fjórðu og síðustu greininni er nefnt eitt dæmi um tengsl viðskiptalífs og stjórnmála, en það dæmi styður heldur betur ekki þær gróusögur sem settar voru af stað í Borgarnesi á dögunum. Í greininni segir að menn úr viðskiptalífinu hafi rætt við tvo ráðherra um að þeir beittu sér í tilteknum viðskiptum, en þar segir jafnframt að ráðherrarnir hafi hafnað þessari málaleitan með öllu.

Þegar farið er ýtarlega í gegnum þessar greinar í stað þess að trúa ýkjusögum, dylgjum og ósannindum um efni þeirra er niðurstaðan sem sagt sú að engin dæmi eru nefnd um bein afskipti ráðherra af viðskiptum. Í einu tilviki á einn maður að hafa fengið skilaboð um að „það félli ekki í pólitískt kram stjórnarráðsins“, eins og það var orðað, að hann kæmist í oddastöðu í bankaráði. Í öðru tilviki taldi Jón Ólafsson „líklegt“ að áhrifamenn yrðu á móti því að hann eignaðist stóran hlut í FBA, sem ríkið var þá að selja og hafði þá skoðun að enginn ætti að eiga þar stóran hlut.

Þetta eru öll afskiptin eftir margra mánaða rannsóknarvinnu blaðamanns, þar sem leitað var í hverjum krók og kima að öllu því sem kynni að teljast markvert lesefni. Hugsanlega sendu einhverjir menn „skilaboð“ til eins manns. En ef til vill voru „skilaboðin“ ekki annað en aðferð þeirra sjálfra til að fá hann til að hætta við framboð. Hver veit? Hvað sem því líður og hvort sem þessi „skilaboð“ voru send eða ekki, þá er augljóst að efni greina Agnesar Bragadóttur réttlætir ekki að sí og æ sé vitnað til greinanna til sönnunar á því að stjórnvöld hér á landi hafi mikil afskipti af viðskiptalífinu. Þvert á móti kemur fram að stjórnvöld hafna afskiptum, stjórnvöld reyna að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og stjórnvöld selja eigur ríkisins til að draga úr eigin áhrifum. Þetta er það sem lesa má út úr greinunum hvað stjórnvöld varðar.

Það sem lesa má út úr þeim áhuga sem Samfylkingin hefur á því að rægja stjórnvöld með ósannindum um pólitísk afskipti af viðskiptalífinu er hins vegar alger málefnaskortur flokksins. Samfylkingin og þá sér í lagi talsmaður hennar Ingibjörg Gróa Gísladóttir telur augsýnilega að engin leið sé að heyja kosningabaráttuna á málefnalegum forsendum. Eina ráðið sé að gera stjórnvöld, einkum forsætisráðherra, sem ótrúverðugust. Gildir þá einu þótt grípa verði til margföldunartöflunnar, dylgnanna, gróusagnanna eða ósannindanna.