Viðskiptablaðið hefur hvatt til þess að haldið verði áfram á þeirri braut að draga úr afskiptum stjórnmálamanna af viðskiptalífinu eins og gert hefur verið á síðustu árum með einkavæðingu og skarpari skilum á milli löggjafarvaldsins og eftirlitsaðila. Á fáum árum hefur orðið alger bylting í þessum efnum og hafa jafnvel heyrst raddir um að sjálfstæði og frumkvæði eftirlitsaðila væri orðið of mikið. Það skýtur því mjög skökku við að enn skuli heyrast dylgjur um að ráðamenn hafi óeðlileg afskipti af málefnum einstakra fyrirtækja, enda er slíkur málflutningur í hrópandi ósamræmi við upplifun almennings og atvinnulífsins samkvæmt könnunum um þau mál. |
– Forystugrein Viðskiptablaðsins, 5. – 11. mars 2003. |
Nei, þeir sem lifa og hrærast í viðskiptalífinu, starfa við það eitt að segja fréttir af því sem þar gerist, þeir segja að á síðustu árum hafi afskipti stjórnmálamanna af atvinnulífinu minnkað svo mjög, að það megi kalla það algera byltingu. Það eru í raun orð að sönnu. Á örfáum árum hafa stjórnvöld markvisst unnið að því að draga stórkostlega úr eigin völdum og áhrifum. Sértækar ráðstafanir, sem eitt sinn voru daglegt brauð, eru nú að heita má horfnar, fjármálastofnanir ríkisins hafa verið seldar ein af annarri og opinberir sjóðir verið lagðir niður eða seldir. Almennar leikreglur hafa verið settar og sjálfstæðar stofnanir fylgjast með að eftir þeim sé farið. Aldrei í Íslandssögunni hafa stjórnmálamenn haft eins lítil áhrif á það sem gerist í íslensku viðskiptalífi. Breytingarnar sjást hvar sem litið er, enda hefur orðið áður óþekktur uppgangur í íslensku efnahagslífi undanfarin ár. Þetta sjá allir sem ekki eru þjáðir af þeim mun alvarlegri pólitískri sjónskekkju.
„Hagsmunaaðilar reyna í þessu að gera stjórnmálamenn að verkfærum sínum. Þegar mikil fjárhagsleg völd eru að baki hagsmunaaðilum reynir á staðfestu, heiðarleika og fjárhagslegt sjálfstæði stjórnmálamanna.“ [Steinþór Skúlason forstjóri Sláturfélags Suðurlands] |
Slíkt fólk er til, að minnsta kosti er til fólk sem talar eins og það trúi því að núverandi stjórnvöld – það er að segja þau sem hafa verið að selja ríkisfyrirtæki og minnka völd og áhrif stjórnmálamanna – kappkosti að auka ítök sín og áhrif í viðskiptalífinu. Þannig er til stjórnmálamaður sem í fullri alvöru heldur því fram að áhrif stjórnmálamanna séu mesta meinsemd íslensks viðskiptalífs. Og þessi stjórnmálamaður fer fyrir þeim flokki sem barist hefur gegn sérhverri einkavæðingu og hatast við þann flokk sem hefur haft forystu um allar þessar breytingar í frjálsræðisátt, breytingar sem Viðskiptablaðið lýsir sem hreinni og klárri byltingu.
Nú má auðvitað vera að þessi stjórnmálamaður mæli einfaldlega gegn betri vitund. Kannski verður að ætla það, því það má vera augljóst hverjum manni hversu málflutningur þessa heldur ólánlega stjórnmálamanns er fjarri öllum sanni. Og ef út í það er farið, þá er þessum stjórnmálamanni vorkunn. Það er ekkert grín að fara fyrir stjórnarandstöðu á tímum þegar kaupmáttur hefur vaxið meira en í nokkru sambærilegu ríki, skuldir hins opinbera verið greiddar gríðarlega niður, skattar á einstaklinga og atvinnufyrirtæki verið lækkaðir og frjálsræði verið aukið á flestum sviðum. Þegar þannig er umhorfs er kannski ekki undarlegt að stjórnarandstaða verði að grípa til undarlegs málflutning til að koma höggi á stjórnvöld. Ekki geta málefnin orðið að ástæðu fyrir borgarna til að skipta um stjórnvöld. Þá þarf í staðinn að finna eitthvað annað til að sannfæra fólk um að einmitt nú verði að breyta til og fela stjórnarandstöðunni öll völd. Og þá er búin til kenningin um ógnarstjórn vondra manna og minnkandi traust fólks á flestum ef ekki öllum stofnunum þjóðlífsins.
Ein forystukona Samfylkingarinnar hefur nú í nokkrar vikur kyrjað þennan söng. Stundum hefur hún gert það í eigin nafni og stundum hefur hún þvert á móti sagt að hún trúi nú alls ekki eigin kenningum en því miður geri eitthvert annað fólk það og því sé ekki um annað að ræða en gera hana að forsætisráðherra þegar í stað. En þó dagamunur sé á því hvort forsöngvarinn er maður til að kannast við þátt sinn í samningu lags og texta, þá er efnisskrá Samfylkingarkórsins alltaf jafn fjarri raunveruleikanum. Og það er ekki aðeins Viðskiptablaðinu sem þykir málflutningur Samfylkingarinnar skjóta „mjög skökku við“ og vera „í hrópandi ósamræmi við upplifun almennings og atvinnulífsins“; forsvarsmenn fyrirtækjanna sjálfra koma af fjöllum þegar þeir eru inntir álits á því sem forysta Samfylkingarinar segist hafa „á tilfinningunni“.
Í liðinni viku lét Viðskiptablaðið ekki nægja að lýsa eigin skoðun á málflutningi forystukonu Samfylkingarinnar heldur leitaði álits fjögurra manna sem starfa á ólíkum sviðum íslensks viðskiptalífs, og þar bar allt að sama brunni.
„Ég hef ekki kynnst frumkvæði stjórnmálamanna til óeðlilegra afskipta af viðskiptalífinu,“ segir Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, og bætir við: „Þvert á móti hef ég oft orðið var við að hagsmunaaðilar og aðilar innan viðskiptalífsins reyna að nýta sér ítök innan stjórnmálanna sjálfra sjálfum sér og sínum hagsmunum til framdráttar.“ Það er semsagt ekki aðeins að forstjórinn kannist ekki við óeðlileg afskipti stjórnmálamanna af atvinnulífinu, hann telur vandamálið vera á hinn veginn: „Hagsmunaaðilar reyna í þessu að gera stjórnmálamenn að verkfærum sínum. Þegar mikil fjárhagsleg völd eru að baki hagsmunaaðilum reynir á staðfestu, heiðarleika og fjárhagslegt sjálfstæði stjórnmálamanna. Ég held því að algengara sé að stjórnmálamenn verði fórnarlömb viðskiptalífsins en öfugt.“
Steinþór Ólafsson, forstjóri Sæplasts á Dalvík, hefur ekki heldur komið auga á þessi afskipti sem núverandi forysta Samfylkingarinnar talar um dag og nótt: „Ég get ekki sagt að ég sé þeirrar skoðunar. Mín reynsla er einfaldlega sú að mér finnast afskipti stjórnmálamanna af því sem er að gerast í rekstri og rekstrarumhverfi fyrirtækja vera frekar lítil. Ég hef ekki orðið var við né heldur tel stöðuna vera þá að stjórnmálamenn séu að hafa afskipti af rekstri fyrirtækja sem slíkum. Það er ekki mín reynsla og ég hef ekki trú á því að svo sé. Ég er því ekki sammála þeim gagnrýnisröddum sem hafa heyrst um að afskiptin séu orðin of mikil.“
Sömu sögu segir Björgólfur Jóhannsson forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Hann segist einfaldlega „aldrei [hafa] orðið var við þessi meintu og umtöluðu afskipti stjórnmálamanna af íslensku viðskiptalífi“.
Og Gunnar Svavarsson, forstjóri SH, tekur í sama streng: „Fyrirtæki þurfa á almennum leikreglum að halda, síðan á að láta þau í friði svo lengi sem þau fara eftir leikreglunum. Í þeim fyrirtækjum sem ég hef starfað hafa afskiptin ekki verið fyrir hendi, og almennt séð met ég það svo að afskipti æðri stjórnvalda séu ekki óeðlilega mikil miðað við stærð þjóðfélagsins.“
Nei, þessir menn, sem stýra ólíkum fyrirtækjum hér og þar um landið og jafnvel víðar um heim, enginn þeirra kannast við það sem tiltekinn stjórnmálamaður hrópar að sé mesta vandamál íslensks viðskiptalífs. Enda er það svo, að þær upphrópanir eru fjarri öllum sanni. Þær eru, eins og Viðskiptablaðið orðar það, í hrópandi ósamræmi við upplifun almennings og atvinnulífsins, og næstum örugglega settar fram í von um að þannig megi breiða yfir það að um þessar mundir hefur einn tiltekinn stjórnmálaflokkur nákvæmlega ekkert uppbyggilegt fram að færa.
En það var fleira umhugsunarvert í svörum forstjóranna, annað en það að enginn þeirra kannast við veruleikann sem núverandi forystukona Samfylkingarinnar lifir í. Sérstaklega mega ummæli forstjóra Sláturfélagsins vera umhugsunarverð: „Hagsmunaaðilar reyna í þessu að gera stjórnmálamenn að verkfærum sínum. Þegar mikil fjárhagsleg völd eru að baki hagsmunaaðilum reynir á staðfestu, heiðarleika og fjárhagslegt sjálfstæði stjórnmálamanna.“ Nú ætti hver og einn að velta íslenskum stjórnmálamönnum fyrir sér. Taka einhverja tvo af handahófi og velta fyrir sér hvor væri líklegri til að standa uppi í hárinu á ósvífnum harðdrægum forstjórum stórfyrirtækja sem vilja gera stjórnmálamanninn að verkfæri sínu. Hvort ætli forysta til dæmis Sjálfstæðisflokks eða Samfylkingar sé líklegri til að standa í ístaðinu gagnvart slíkum fuglum?