Formenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hafa báðir lýst vilja sínum til að halda áfram að lækka skatta á næsta kjörtímabili. Formaður Framsóknarflokksins leggur til ríflega 3% lækkun tekjuskatts á einstaklinga og hafa framsóknarmenn lýst þessari tillögu sem „róttækri“. Tillagan er nú svo sem ekki sérlega róttæk í huga þeirra sem standa hægra megin við miðju, en hún er engu að síður jákvæð og sýnir að framsóknarmenn hafa skilning á að áfram þarf að halda á þeirri braut að lækka skatthlutföll. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur ekki enn útfært tillögur sínar, en viljinn er greinilega fyrir hendi og hvort sem tekið er mið af almennri stefnu flokkanna eða sögunni, má gera ráð fyrir að framsóknarmönnum muni þykja tillögur hans byltingarkenndar fyrst hóflegar tillögur formanns þeirra eru taldar róttækar.
Þau sjónarmið hafa heyrst héðan og þaðan að skattalækkun nú væri ekki af hinu góða. Að skattalækkun hefði þensluáhrif á þeim tíma sem mikill uppgangur verði í hagkerfinu vegna uppbyggingar stóriðju. Sumir berja sér á brjóst og segja að þetta sé nú bara einföld hagfræði, kennd í fyrsta kúrsi í háskóla. Eða jafnvel framhaldsskóla. Þetta er rétt svo langt sem það nær, í fyrstu kúrsum hagfræðinnar er margs konar jöfnum um efnahagslífið dembt yfir nemendur og þeir eru látnir reikna út alls konar áhrif af hinu og þessu, meðal annars af skattalækkunum. Og þeir eru til sem halda að í þessum líkönum af efnahagslífinu felist hinn endanlegi sannleikur um það – og jafnvel um mannlífið allt.
Þannig er þetta þó ekki og fáum sem lesið hafa lengra dettur í hug að taka mjög bókstaflega þær einfaldanir sem bornar eru á borð fyrir nemendur í grunnkúrsum hagfræðinnar og eru ætlaðar til að auka lítillega skilning á efnahagslífinu – hvort sem þær eru nú vel til þess fallnar eða ekki. Inn í þessar jöfnur vantar margt sem seint verður útfært á jöfnuformi svo vit sé í, enda verður mannlífinu seint lýst með stærðfræðiformúlum. Eitt af því sem vantar inn í jöfnurnar er hegðun manna og þá ekki síst stjórnmálamanna. Jöfnurnar gera ekki ráð fyrir öðru en að stjórnmálamenn hagi sér skynsamlega og fari vel með almannafé. Þær gera ekki ráð fyrir kjördæmapoti eða frambjóðendum sem reiðubúnir eru til að kaupa sér velvild kjósenda sinna. Í jöfnunum er gert ráð fyrir að stjórnmálamennirnir muni standa á bremsunni í útgjöldum ríkisins, jafnvel þótt ríkiskassinn verði yfirfullur af skattfé vegna þenslu í þjóðfélaginu. Finnst einhverjum þetta líklegt? Er ekki að minnsta kosti jafn líklegt að almenningur muni nýta sér þann aukna kaupmátt sem hann fær vegna lækkunar skatthlutfallsins til þess að greiða niður skuldir sínar eða leggja fyrir?
Sumir virðast halda að svo sé ekki og að stjórnmálamenn séu á þenslutímum líklegri til að fara vel með almannafé en almenningur sjálfur. Þetta eru reyndar oft og tíðum þeir sömu og telja fráleitt að lækka skatta þegar hallæri ríkir. Þeir eru með öðrum orðum jafnan á móti skattalækkunum, en setja þá andstöðu sína í ólíkan búning, allt eftir því hvernig árar í efnahagslífinu. Eðlilegast væri að slíkir menn kæmu hreint fram og viðurkenndu einfaldlega að þeir eru á móti skattalækkunum, nú, síðar, áður fyrr og ævinlega.