Þriðjudagur 4. mars 2003

63. tbl. 7. árg.

Hver er skoðun Hafrannsóknarstofnunar á Íraksmálinu? Er það rétt að stofnunin telji að Vesturlönd eigi að láta til skarar skríða og koma Saddami Husseini og Byltingarflokki hans frá völdum? Hyggst Hafrannsóknarstofnun taka þátt í alþjóðlegu átaki sem miðað er að því að hafa áhrif á lýðræðislega kjörin stjórnvöld um víða veröld til að fá þau til að ráðast nú að Saddami í eitt skipti fyrir öll? Þessar spurningar verða áleitnari nú þegar opinberar stofnanir hafa ein af annarri lýst afstöðu sinni. Vegagerðin er andvíg stríði, Umferðarráð er mjög hlynnt hernaði sem víðast, Veðurstofan slær úr og í enda veðurstofustjóri svo mikill krati að hann sat tíðum á þingi fyrir Alþýðuflokkinn áður en umhverfisráðherra Alþýðuflokksins skipaði hann veðurstofustjóra fyrir nokkrum árum.

Og í gær slóst Þjóðleikhúsið í þennan hóp með því að setja á svið sérstaka sýningu sem ætluð var til þess að mæla fyrir því að ekki yrði farið með hernaði gegn áðurnefndum Saddami. Hafrannsóknarstofnun, Vegagerðin, Umferðarráð og Veðurstofan hafa auðvitað ekki sagt orð um það hvaða afstöðu Vesturlönd – eða Alþingi Íslendinga – eiga að taka til deilunnar um afvopnun Íraka. En það hefur hins vegar Þjóðleikhúsið gert og þykir eflaust ýmsum sjálfsagt. En getur kannski verið að sú skoðun ráðist af því hvaða afstöðu þjóðleikhússtjóri tók til Íraksdeilunnar? Ætli það hefðu kannski orðið meiri viðbrögð ef hann hefði ákveðið að halda sýningu í gagnstæðu skyni? Ætli einhver hefði kannski sagt eitthvað ef Þjóðleikhúsið hefði sett á svið gasárásir Írakshers gegn eigin borgurum, svona til að vinna því fylgi að ráðist yrði gegn Saddami? Ætli eitthvað yrði sagt ef leikinn yrði einræðisherra sem neitaði að selja olíu ef það yrði með því skilyrði að hann mætti aðeins kaupa mat og lyf fyrir andvirðið, og vildi frekar neita þegnum sínum um þessar mikilvægu vörur? Ætli þá yrði kannski sagt að þjóðleikhússtjóri væri að sjálfsögðu jafn frjáls og aðrir að hafa sína skoðun á málinu en hann ætti ekki að blanda Þjóðleikhúsinu í það?