Þriðjudagur 11. febrúar 2003

42. tbl. 7. árg.

Ívikunni sem leið kynnti stjórn Strætós bs að frá og með 10. febrúar myndi gjaldskrá fyrirtækisins gagnvart sveitarfélögunum sem reka fyrirtækið lækka um 7%. Þetta er afar ánægjuleg og tímabær lækkun enda lækkar gjald skattgreiðenda til fyrirtækisins þar með um 85 milljónir króna á ári. Fyrir lækkunina greiddi almenningur nauðugur um 1.200 milljónir króna á ári með rekstri Strætó bs en nú lækkar sú upphæð að öllum líkindum í um 1.115 milljónir króna á ári nema fyrirtækið finni nýjar leiðir til að keyra skattgreiðendur á kaf.

Áratugum saman hafa verið lagðar þungar byrðar á herðar skattgreiðenda á höfuðborgarsvæðinu vegna rekstrar Strætós bs og fyrirrennara hans. Gjaldskrá fyrirtækisins gagnvart sveitarfélögunum sem að því standa hefur farið hækkandi ár frá ári enda fækkar þeim sífellt sem vilja nota strætisvagna í samanburði við þá sem fara aðrar leiðir. Á sama tíma og strætisvagnaferðir eru niðurgreiddar um óheyrilegar fjárhæðir á ári hverju greiða þeir sem reka eigin bíl stórfé til hins opinbera með óteljandi og óhóflegum gjöldum og sköttum sem lögð eru á kaup og rekstur fjölskyldubíls. Og ekki nóg með það því mengun frá farþega í illa nýttum strætisvagni hins opinbera er oft á tíðum meiri en frá farþega í einkabíl.
Það er ekki þar með sagt að strætisvagnaferðir leggist af þótt sveitarfélögin hætti rekstri þeirra. Vafalítið eru einhverjar leiðir arðbærar og ekki er annars að vænta en að einkaaðilar sinni þeim.

En auðvitað eru litlar líkur til þess að sveitarstjórnarmenn taki það til athugunar að félög þeirra hætti útgerð strætisvagna. Þá myndu þeir bregðast þeirri vinnureglu sinni að afþakka aldrei útgjaldalið, þiggja aldrei sparnaðartillögu og lækka aldrei skatta.