Fimmtudagur 6. febrúar 2003

37. tbl. 7. árg.

Undanfarinn áratug hafa ríkisvaldið og hin stærri sveitarfélög þrýst mjög á um sameiningu sveitarfélaga. Hefur bæði verið beitt fortölum og valdboði í þessari baráttu og aukin framlög úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga verið notuð sem gulrót á litlu sveitarfélögin til að fá þau til að fallast á að gefa eigin sjálfstæðu tilveru upp á bátinn og renna inn í hin stærri. Árangurinn er sá að íslenskum sveitarfélögum hefur fækkað mjög á þessum árum, þó félagsmálaráðuneytinu finnist auðvitað aldrei nóg að gert. En þó mörg minni sveitarfélög hafi gengið til sameiningar við hin stærri þá hefur áhugi þeirra verið mis mikill og sum gert það nauðug. Minnstur sameiningaráhugi mun þó sjálfsagt hafa verið í Fjallahreppi í Norður-Þingeyjarsýslu en kosning hreppsbúa um sameiningartillögu sem var þvinguð upp á þá árið 1993 fór þannig að á kjörskrá voru fimm, þrír kusu og þar af gerði einn ógilt. Hinir tveir sögðu nei.

Þrátt fyrir þessa atkvæðagreiðslu var Fjallahreppi gert að sameinast öðru sveitarfélagi, enda þykir yfirvöldum að hópur sem er svo fámennur að hann næði ekki að mynda handboltalið geti ekki talist sveitarfélag. Samkvæmt núgildandi lögum má þvinga sveitarfélag til sameiningar ef það hefur haft færri íbúa en 50 um meira en þriggja ára skeið, en félagsmálaráðuneytið mun hafa í hyggju að hækka þetta mark all verulega, enda eru miklir sameiningarsinnar sem þar ríða húsum. Nú er að vissu leyti skiljanlegt að settar séu reglur um lágmarksfjölda íbúa í sveitarfélagi, svona ef ætlast er til að íbúar geti gengið að vissri þjónustu sveitarfélags vísri, en engu að síður er ástæða til að horfa með tortryggni til allrar sameiningarákefðarinnar.

Á undanförnum árum hafa ýmis sveitarfélög mjög fært út kvíar sínar, bæði vegna laga sem kveða á um breytta verkaskiptingu ríkisins og sveitarfélaga, en einnig vegna eigin agaleysis. Hefur þessi tilhneiging orðið því meira áberandi sem sveitarfélögin eru stærri og virðast stundum lítil takmörk fyrir því sem sveitarstjórnarmönnum dettur í hug að gera fyrir peninga útsvarsgreiðenda. Vitaskuld er Reykjavíkurborg R-listans þar mest áberandi þar sem borgaryfirvöld hafa undanfarin ár verið nær stjórnlaus þegar kemur að útgjöldum og skuldasöfnun. Borgaryfirvöld sem víla ekki fyrir sér að tapa milljörðum á ljósleiðarafyrirtækjum og hugleiða í fullri alvöru að láta Orkuveitu Reykjavíkur hefja rækjueldi, þeim virðist bara ekki sjálfrátt þegar kemur að opinberum útgjöldum. Ýmis önnur stór sveitarfélög hafa farið á sömu útgjaldabraut og segja má að því stærri sem sveitarfélög eru, þeim mun meiri líkur séu á að hagsmunahópum takist að kría út kostnaðarsöm óþarfaverkefni.

Á hinn bóginn má ætla að því minni sem sveitarfélög séu, þeim mun meiri líkur séu á að þau einskorði sig við þau verkefni sem ætla má mikilvæg fyrir íbúana. Það er sjálfsagt engin tilviljun hversu algengt það hefur verið að stórskuldug og fjölmenn sveitarfélög gleypi fámenn en stöndug sveitarfélög, jafnvel gegn vilja mikils meirihluta íbúa hinna fámennari. Vitaskuld fer sameinging oftar fram eftir að hafa verið samþykkt í atkvæðagreiðslum, en ósjaldan með litlum mun í minni sveitarfélögunum. Og af því yfirvöld eru áhugasöm um sameiningarmál er gjarnan beitt Evrópusambandsaðferðinni við sameiningu sveitarfélaga, það er að segja, ef sameining er felld er kosið aftur þangað til hún er samþykkt. Þegar sameining hefur svo einu sinni verið samþykkt verður aldrei kosið aftur.

Eins og áður sagði hefur jöfnunarsjóður sveitarfélaga verið notaður til að hvetja fólk til að samþykkja sameiningu og er auðvitað ekki nema mannlegt þó margir freistist til að greiða atkvæði þeirri tillögu sem skila myndi auknum framlögum úr slíkum sjóði. Þá er óþarfi að neita því að vissulega telja ýmsir að sveitarfélög eigi því meiri möguleika sem þau eru fjölmennari og því sé jafnan til góðs að steypa þeim saman. Í sumum tilvikum kann það að vera rétt. Þeir sem standa frammi fyrir kosningum um sameiningartillögur hljóta að leggja sjálfstætt mat á hverja tillögu fyrir sig. Engu að síður má gefa frjálslyndu fólki þau almennu ráð að horfa gagnrýnum augum á slíkar tillögur. Séu rökin að baki tillögu um sameiningu sveitarfélaga ekki þeim mun sterkari, ætti allt frjálslynt fólk, sem vitaskuld vill að hið opinbera fari sér hægt í afskiptum af daglegu lífi borgaranna, að hugleiða alvarlega þann möguleika að halda tryggð við sína sveit og segja nei. Og það því frekar sem sameiningarsinnar tala meira um að með samþykki sé mikil „sókn“ í vændum.