Mánudagur 3. febrúar 2003

34. tbl. 7. árg.

Ígær var mættur óðamála frambjóðandi Samfylkingarinnar, Ágúst Ágúst Ágústsson, í Silfur Egils á Skjá 1. Býsnaðist hann nokkuð yfir því að stofnuð væru ný sendiráð Íslands og kostnaðinum sem af því hefur hlotist. Ekki er ástæða til annars en að taka undir þá kröfu að aðhalds sé gætt í utanríkisþjónustu landsins og sendiráðum fremur fækkað en hitt. En sami Ágúst hefur hins vegar haldið því fram að Íslendingar eigi að ganga í Evrópusambandið. Það er nú það. Eitt af því sem fylgir aðild að þessu bandalagi er stofnun sendiráða í öllum ríkjum sambandsins. Íslendingar þyrftu með öðrum orðum að setja upp eins og 15 ný en óþörf sendiráð.

Í sama þætti var Kolbeinn Óttarsson Proppé frambjóðandi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á Suðurlandi mættur til að lýsa því yfir að það hefði aldrei „verið dýrara að hefja líf á Íslandi“. Þetta er frumleg hugsun hjá Kolbeini þótt hið rétta sé raunar að það hefur aldrei verið ódýrara. Kaupmáttur Íslendinga hefur aukist um þriðjung á aðeins einum áratug. Það þýðir með öðrum orðum að fjórðungur af lífskjörum Íslendinga varð til á þessum áratug. Vart þarf að taka það fram að þetta er einsdæmi. Hinir þrír fjórðungarnir urðu til á þeim rúmu 1.100 árum, eða 110 áratugum, sem á undan komu.

Og ekki nóg með það. Lífskjör á Íslandi voru ekki að batna svo mjög á síðasta áratug vegna þess eins að þau væru svo bágborin fyrir að ekki væri von á öðru en að úr rættist. Ísland er eitt ríkasta land í heimi og þessi kjarabót var langt frá því að vera sjálfgefin. Þar með er ekki öll sagan sögð. Því óvíða er þessu ríkidæmi skipt á jafnari hátt en einmitt hér þótt Ágúst, Kolbeinn og flokksfélagar þeirra séu engu að síður nær látlaust að ræða þá miklu misskiptingu sem hér sé.