E
Jú gott kvöld við erum að hringja í kjósendur og kanna afstöðu leiðtogans til nokkurra mála. |
ngan þarf að undra þó tveir fylgifiskar nútímastjórnmála, skoðanakannanir og Samfylkingin, komi stundum sameiginlega til tals. Svo nátengt getur þetta tvennt verið að vart má svo annað nefna að ekki komi hitt jafnframt í hugann. Ekki er þó svo að Samfylkingin hafi alltaf átt svo góðu gengi að fagna í skoðanakönnunum en hitt er ótvírætt að enginn stjórnmálaflokkur á Íslandi – Frjálslyndi flokkurinn meðtalinn – gengur lengra í því að miða stefnu sína, málflutning, forystu og frambjóðendur við skoðanakannanir. Flokkurinn beinlínis mælir réttmæti aðgerða sinna við niðurstöður hringinga frá Gallup. Lýðræðislega kjörinn leiðtogi flokksins er jafnvel settur af í skjóli nætur og annar settur í staðinn – án þess að nokkur einasta stofnun flokksins, að ekki sé talað um almenna flokksmenn, sé spurð álits – ef skoðanakönnun fæst sem bendir til að slík aðgerð gæti aukið fylgi flokksins um stund. Og nýi leiðtoginn, sem með þessu braut alkunn og skýr loforð sín við bæði kjósendur sína og samstarfsmenn, hann og hans nánustu „ráðgjafar“ vísa eftir á í skoðanakannanir sem eiga að sýna að það hafi bara verið í lagi hjá leiðtoganum að ganga á bak allra sinna orða.
Þekkir einhver dæmi þess að Samfylkingin setji fram stefnu sem fyrirsjáanlegt er að falli í grýttan jarðveg hjá meirihluta kjósenda? Meira að segja stefnan í Evrópumálum sveiflast með könnunum og það stundum svo nákvæmlega að með ólíkindum er. Eða leiðtoginn nýi, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þekkja menn nokkurt dæmi þess að hún hafi, frá því hún var endurhönnuð árið 1994, nokkurntíma gengið gegn því sem ætla mátti almenningsálit á hverjum tíma? Reyndar hefur þessi svokallaði leiðtogi undanfarin átta ár forðast í lengstu lög að láta ná út úr sér nokkurri skýrri skoðun á nokkru deilumáli. Það var meira að segja með herkjum að það tókst á dögunum að fá út úr leiðtoganum einhvern vísi að skoðun á mesta deilumáli síðustu missera, væntanlegum virkjunarframkvæmdum Landsvirkjunar við Kárahnjúka, og var Ingibjörg þó og er enn oddviti þess sveitarfélags sem ræður yfir 45 % hlutabréfa í Landsvirkjun! Og loksins þegar afstaðan kom, þá varla kom hún. Jú, Ingibjörg hafði nú sínar efasemdir, sem enginn veit neitt um og ekki voru útskýrðar frekar, en vildi samt „ekki bregða fæti fyrir“ virkjunina og greiddi því atkvæði með tillögu um að sveitarfélagið ábyrgðist nauðsynleg lán til framkvæmdanna. En orðalag Ingibjargar, að „bregða ekki fæti fyrir“ lánveitinguna, segir talsvert um hugsunina að baki, því ekki var um það að ræða að hún gæti í raun „brugðið fæti fyrir“ virkjunina. Þegar leiðtoginn gaf þessa ástæðu fyrir atkvæði sínu lá það nefnilega fyrir að með atkvæðum framsóknarmanna og sjálfstæðismanna í borgarstjórn var ábyrgðin í höfn. Ingibjörg var einfaldlega í lengstu lög að reyna að styggja hvorki virkjunarsinna né virkjanaandstæðinga og atkvæðið fékkst ekki uppgefið fyrr en greint hafði verið frá nýrri skoðanakönnun sem sýndi yfirgnæfandi stuðning landsmanna við virkjunina. Hinn mikli leiðtogi sem aðeins fylgir sannfæringu sinni, eins og hann segir nú svo oft, var sjálfum sér líkur.
Og sama á við í flestum málum. Ingibjörg forðast að taka afstöðu um annað en almennt hjal en er jafnan fús að tala einarðlega um „gildi menntunar“, „nútímaleg vinnubrögð“ og „viðhorfsbreytingu“. Í tæpan áratug hefur hinn mikli leiðtogi, hin „nýja tegund stjórnmálamanna“, verið ófáanlegur til að taka afstöðu til nokkurs sem deilt hefur verið um af alvöru í íslenskum stjórnmálum. Vill Ingibjörg virkja á hálendinu eða vill hún það ekki? Veit einhver það í raun í dag? Vill hún í raun einkavæða ríkisfyrirtæki eða ekki? Eða er það kannski sama og með virkjunina? Ekki beinlínis á móti, svona opinberlega, en þó ekki hlynnt heldur, en vill samt ekki bregða fæti fyrir einkavæðinguna þó hún hafi nú sínar efasemdir sem ekki fást útskýrðar frekar. Og fyrri deilumál? Leiðtoginn náði nú ekki lengra en að sitja hjá um EES-samninginn en í áratug hefur áróðursvél leiðtogans hrósað honum fyrir það þrekvirki. Hvað fannst Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til dæmis um gagnagrunninn á heilbrigðissviði sem mest var deilt um fyrir nokkrum misserum? Það veit enginn enda engin skoðanakönnun birst um það mál lengi. Borgarstjórinn í Reykjavík gat ekki einu sinni tekið afstöðu til þess hvort Reykjavíkurflugvöllur mætti vera eða skyldi fara úr Vatnsmýrinni. Eða hver treystir sér til að endursegja skoðun borgarstjóra á því? Kom ekki á endanum eitthvað um að ein braut ætti kannski að fara og þá yrði ein eftir? Og var þó enginn að hugsa um annað en að völlurinn annað hvort væri eða færi – enginn hafði látið sér detta í hug að völlurinn gerði hvort tveggja í senn. Og þar að auki eru flugbrautirnar þrjár en ekki tvær eins og Ingibjörg virtist halda.
En þrátt fyrir látlausa sögu í þessa veru halda áróðursmenn leiðtogans áfram að hamra á því að þarna sé á ferð óvenjulega heill stjórnmálamaður sem aðeins fylgi eigin sannfæringu og engu öðru.
Einmitt.