Laugardagur 11. janúar 2003

11. tbl. 7. árg.

H

Fólk hefur misgóðar tekjur. Forseti Íslands er mjög maklegur sinna 1,45 milljóna króna á mánuði og getur því með góðri samvisku slappað af á Bessastöðum með eftirlætistímarit sitt, Fortune, í hönd og hugsað með stolti til innihaldsríkra snilldarávarpa sinna.

ann var grátklökkur um áramótin, blessaður. Hann átti varla nægilega stór orð til að lýsa samúð sinni með fátæka fólkinu sem gengur tugþúsundum saman um götur borgarinnar og á ekki fyrir mat, hvað þá öðru – svona ef lagður er trúnaður á þá sem mest tala um fátækt á Íslandi. Nei, ef það er einhver sem finnur til með þeim sem minna mega sín þá er það vinur alþýðunnar, maður fólksins, dr. Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi fjármálaráðherra. Og af því að Ólafi Ragnari er annt um þá sem minnst mega sín þá er hann glaður í hjarta yfir því hversu kaupmáttur hefur vaxið á Íslandi undanfarin ár og er þakklátur fyrir hversu kaupmátturinn er meiri nú en hann var til dæmis á árunum 1988-1991 þegar ástand íslenskra efnahagsmála var lítið gleðiefni.

Og talandi um þessi ár. Var það ekki haustið 1988 sem harmþrunginn maður, hávaxinn, ljóshærður og borginmannlegur í framkomu, mætti í verslunina Miklagarð og hélt þar fund. Stóð uppi á kassa og hrópaði yfir gesti og gangandi að þar til þáverandi fjármálaráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, afnæmi virðisaukaskatt á matvælum væri sá ráðherra einfaldlega brennimerktur maður? Og hvað leið, vika var það ekki, þangað til maðurinn á kassanum var sjálfur sestur í ríkisstjórn, orðinn fjármálaráðherra og tekinn til við að innheimta virðisaukaskattinn af hörku? Já, var það ekki í viku sem manninum á kassanum entist samúðin með þeim sem þurftu að greiða matarskattinn? Og var það ekki sami maður sem sendi frá sér glaðninginn sem fljótlega varð kallaður „ekknaskattur“ manna á meðal? Það var nú ekki margt á þeim árum sem kom verr við tekjulágt fólk, sérstaklega í eldri kantinum.

En óþarfi að vera nú að þvaðra um einhvern gamlan loddara sem reglulega gerir sér upp samúð með þeim sem höllum fæti standa, í þeim eina tilgangi að koma sér eða samherjum sínum á valdastóla. Nei, hér er það forseti Íslands sem mælir, enginn slúbbert.