Af fréttum síðdegis í gær mátti ætla að stórtíðindi hefðu gerst því allir fréttatímar og spjallþættir fylltust af umfjöllun um að sjálf Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri ætlaði að gefa kost á sér í komandi þingkosningum. Þó er það nú svo að þetta ætti ekki að vera nokkrum manni tíðindi – nema ef til vill þeim sem hafa trúað því að orð Ingibjargar séu þess virði að tekið sé mark á þeim. Ýmsir hafa lengi vitað að hún myndi bjóða sig fram til þings þrátt fyrir síendurteknar yfirlýsingar um annað, og má benda á pistil af þessum síðum frá því í sumar því til staðfestingar. En þeim sem kemur framboð Ingibjargar á óvart er nokkur vorkunn þegar aðdragandinn er skoðaður, því stjórnmálamaður hefur líklega aldrei gefið afdráttarlausara loforð en Ingibjörg hefur gert um þetta efni.
Fyrir kosningar til borgarstjórnar í vor var ljóst að kjósendur höfðu ekki áhuga á að kjósa aðra frambjóðendur R-listans en Ingibjörgu og hún gerði sér sjálf grein fyrir þessu, því hún sagði að meðal borgarbúa hefði hún „meiri stuðning en Reykjavíkurlistinn“. Það lá því fyrir að ef kjósendur hefðu vitað hvað var í raun verið að kjósa um, þ.e. R-listann án Ingibjargar, þá hefði ekki nægur fjöldi þeirra kosið hann til að hann gæti setið áfram við kjötkatlana. Þess vegna var tekin sú ákvörðun að skrökva því að kjósendum að auðvitað ætlaði Ingibjörg alls ekkert í þingframboð og að auðvitað yrði hún borgarstjóri allt kjörtímabilið. Að halda öðru fram væri ekkert annað en aumur óhróður andstæðinganna. Og af því að Ingibjörg væri svo gegnheill stjórnmálamaður gætu kjósendur treyst þessu.
„Mér finnst ég skuldbundin mjög mörgu fólki í því sambandi“ sagði hinn óvenjulega orðheldni stjórnmálamaður, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrir sex mánuðum og átján dögum. Síðan hefur ekkert gerst nema það að hún er ekki skuldbundin lengur. Þetta var svokallað hálfsársloforð. |
Til að taka af öll tvímæli sagði Ingibjörg í viðtali við Morgunblaðið, spurð að því hvort tryggt væri að hún yrði borgarstjóri næstu fjögur árin: „Nei, það er ekki tryggt, ég gæti náttúrlega hrokkið upp af.“ Og til að enginn væri í vafa bætti Ingibjörg því við að hún væri „ekki á leið í þingframboð að ári“. Þeir sem vilja skýrari yfirlýsingar frá stjórnmálamönnum verða að leita út fyrir jarðarkringluna, því skýrari yfirlýsingar gefa menn ekki hér um slóðir.
En nú er komin upp breytt staða. Eða eitthvað. Nú hefur Ingibjörg skipt um skoðun. Og hvað er það sem gerst hefur frá því Ingibjörg gaf þessar yfirlýsingar fyrir kosningar. Jú, kosningarnar hafa farið fram, bragðið hefur heppnast því kjósendur trúðu henni. En það er ekki allt, hún hefur líka bætt í yfirlýsingarnar, því hún hefur eftir kosningar sagt að hún telji sig „skuldbundna“ kjósendum að sitja áfram og geti því ekki farið á þing. En nú hafa skuldbindingarnar sem sagt ekki lengur gildi, nú gildir bara að komast á þing hvað sem það kostar, hvort sem verðið er trúverðugleikinn, kjósendur eða samstarfsmennirnir. Þær skuldbindingar sem samstarfsmenn hennar í R-listanum í borgarstjórn telja að hún hafi líka gefið sér, þær eru ekki heldur nokkurs virði í dag. Samstarfsmennirnir verða að sætta sig við það líkt og kjósendur að Ingibjörg þarf að fá að skipta um skoðun – með öðrum orðum að svíkja gefin loforð – ef henni býður svo við að horfa. Þeir geta ekkert gert þá kröfu til hennar að hún fari ekki í þingframboð þó hún hafi lýst því yfir að hún fari ekki. Það er ekki þeirra mál heldur hennar einnar. Á endanum hlýtur þetta að vera hennar ákvörðun, segir hún nú hróðug.
Hver skyldu svo vera rök Ingibjargar fyrir því að fara nú þrátt fyrir yfirlýsingar um annað. Þau eru fátækleg en aðallega tvenns konar. Annars vegar heldur hún því nú fram að hún hafi meint það sem hún sagði þegar hún sagði það, um að hún ætlaði ekki í þingframboð. Hún hafi bæði meint það fyrir kosningar og eftir. Nú hafi sem sagt eitthvað gerst og nú meini hún þetta bara alls ekki lengur og þess vegna megi hún svíkja loforðið. Hins vegar segir hún nú að hún geti vel verið borgarstjóri áfram þó hún fari á þing, því hún verði nú ekki framarlega á listanum og helst má skilja hana þannig að hún sé varla á leið í þingframboð þrátt fyrir allt. Þetta sé eiginlega bara svona hálfgert þingframboð. Eða að hún hafi eiginlega bara lofað því að vera áfram borgarstjóri en hafi alls ekki lofað því að fara ekki fram til þings, þó hún hafi lofað því. Þetta er makalaus málflutningur, en látum sem svo að þetta gangi upp og að þar með hafi hún fært fullnægjandi rök fyrir því að fara fram til þings.
Ef þessi rök hennar ganga upp þá hlýtur hún þó að vera reiðubúin til þess nú að staðfesta að hún muni gegna starfi borgarstjóra út kjörtímabilið þó hún fari líka á þing. Nei, hún er að vísu ekki reiðubúin til þess. Í Kastljósinu í gær var hún spurð að því hvort til greina kæmi að gegna ráðherraembætti samhliða borgarstjóraembættinu og hún svaraði því afdráttarlaust neitandi. Það kæmi ekki til greina. Hún var þá spurð að því hvort hún gæti þá lýst því yfir að hún myndi ekki taka ráðherrastól ef Samfylkingin endaði í ríkisstjórn að loknum kosningum. Nei, hún var alls ekki reiðubúin til að segja nokkuð um það og sagðist telja ósanngjarnt af fyrirspyrjendum að ætlast til þess að hún gæfi eitthvað upp um það hvort hún hyrfi til annarra starfa en borgarstjórastarfsins á þessu kjörtímabili! Þetta hlýtur að hafa glatt kjósendur hennar óskaplega. Nú er það sem sagt þannig að hún mun gegna starfi borgarstjóra nema henni bjóðist ráðherrastóll, en fyrir kosningar ætlaði hún að gegna starfi borgarstjóra út kjörtímabilið hvað sem kæmi upp á. Nema að vísu ef hún hrykki upp af. En það var nú eiginlega óþarfur fyrirvari, menn myndu fyrirgefa brotthvarf af þeim sökum.
Í öllum þeim ósannindum sem Ingibjörg býður landsmönnum upp á í tengslum við væntanlegt framboð sitt til þings er vel við hæfi hvernig framboðið ber að. Í gær varð hún auðvitað – til að gæta samræmis – að segja ósatt um það hvort hún væri búin að samþykkja að fara í framboð eða ekki. Spurð að því hvort hún væri búin að ákveða framboðið gat hún ekki stillt sig um að skrökva því að það væri hún ekki búin að gera, en myndi gera fljótlega. Hún var hins vegar svo óheppin að skömmu áður hafði formaður Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, greint frá því að Ingibjörg væri búin að fallast á framboð og að það lægi meira að segja fyrir að hún yrði í Reykjavíkurkjördæmi nyrðra. Vegna þessa nýjasta skröks borgarstjóra þurfti viðtalið við hana í Kastljósinu að hefjast á því að reyna að fá það á hreint hvort þeirra segði nú satt, hvort hún væri búin að ákveða framboð eða ekki. Þar staðfesti hún, með semingi þó, að hún hefði nú að vísu svarað boðinu um sæti á framboðslista Samfylkingarinnar játandi.
Hún hafði sem sagt af einhverjum óútskýrðum ástæðum ákveðið að skrökva því í viðtali skömmu áður að hún væri ekki búin að ákveða framboðið. Hvers vegna? Hver veit, kannski bara af gömlum vana?