Ísvari við fyrirspurn Ástu Möller á Alþingi í fyrra kom fram að nokkur félög fá ríkisstyrki með gjaldi sem ákvarðað er með lögum. Þessi samtök eru Samtök iðnaðarins, Lífeyrissjóður sjómanna, Sjómannasamband Íslands, sjómenn innan Alþýðusambands Austfjarða, Alþýðusambands Vestfjarða, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands,Vélstjórasambands Íslands, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband smábátaeigenda, Bændasamtök Íslands, búnaðarsambönd og búgreinasamtök.
Að auki fá ýmis félög sem suðað hafa í ráðuneytum og fjárlaganefnd ýmsar sporslur úr ríkissjóði oftast undir því yfirskyni að þau ætli sér að vinna að „framgangi“ einhvers þjóðþrifamálsins. Á framfæri sveitarstjórna eru svo alls kyns samtök um boltaleiki, leiksýningar, safnagrúsk, jafnréttismál, umhverfismál og svo mætti lengi telja. Ekkert af þessu er þakkað eins og sjá mátti í frétt DV á dögunum þar sem forysta fótboltamanna sagði sig vera hornreka þegar kemur að því að neyða skattgreiðendur til stuðnings við ákveðin áhugamál manna. Var eins og allir boltavellirnir, bæði úti og inni, bæði gervi og ekta, hefðu gufað upp með stúkunum, félagsheimilunum og íþróttahúsunum. Að sjálfsögðu var aðeins rætt við fulltrúa eyðenda en ekki greiðenda í þessari frétt eins og svo mörgum öðrum.
Það er ekki gott að átta sig á hve miklu hinum almenna borgara er gert að greiða með öllum þessum félögum. Vafalaust hleypur þetta á nokkur þúsund milljónum króna á hverju ári þegar allt er talið. Og það eru 63 þingmenn og nokkrir sveitarstjórnarmenn sem eru milliliðir milli skattgreiðenda og þeirra sem styrkina hljóta og ákveða í raun hvað hver landsmaður styrkir. Vefþjóðviljinn vill því leyfa sér að gera gamalt slagorð að sínu í þessu máli: Burt með milliliðina! Ef skattgreiðendur vilja styrkja hin ýmsu félög og öll hin afbragðsgóðu mál sem þau sinna þá bara gera þeir það sjálfir, beint og milliliðalaust. Enda málin svo góð að mati þeirra sem þau kynna að engin hætta er á öðru en að hinn almenni maður taki upp veskið. Ekki síst ef skattar eru lækkaðir sem nemur öllum þessum styrkjum til hinna góðu félaga.