S
Þegar kemur að raunveruleikanum er það svo að enginn stjórnmálaflokkur í hinum vestræna heimi hefur falið konu meiri völd en breski Íhaldsflokkurinn. |
tjórnmálaflokkarnir hafa haldið prófkjör og stillt upp framboðslistum á síðustu vikum. Eins og gjarnan áður við slík tækifæri er sett í gang mikil umræða um „stöðu kvenna“ á framboðslistunum og svo að heyra á mörgum að þeim þyki í raun og veru skipta máli af hvaða kyni frambjóðendur eru. Æsingurinn og rétttrúnaðurinn verður stundum slíkur, að ætla mætti að til dæmis venjulegur vinstri maður myndi frekar styðja „kynjablandaðan“ lista hægri manna heldur en lista með tómum skoðanabræðrum sínum! Málflutningur slíkra manna verður svo enn furðulegri þegar horft er til þess að þetta eru yfirleitt sömu mennirnir og standast ekki reiðari en þegar einhver heldur því fram að munur sé á upplagi og hæfileikum kynjanna. Það fólk sem ár eftir ár fordæmir metsölubækurnar sem eiga víst að fjalla um ólíkt eðli kynjanna, það sama fólk virðist telja að hlutfall kynja á framboðslistum skipti einhverju sérstöku máli. Sem ætti þó ekki að geta verið ef enginn munur er á eðli og upplagi karla og kvenna. Ef karlar og konur eru í gerðinni jafn hæf til að ráða fyrir löndum – og því skyldi það ekki geta verið? – þá getur ekki skipt máli hvort karlar eða konur eru í meirihluta á framboðslistum.
Annað furðulegt við kynjaumræðuna sem dembt er yfir saklaust fólk er sú hugmynd að vinstri flokkar geri konum hærra undir höfði en hægri flokkar. Það eru til menn sem fullum fetum halda því fram að konur eigi „erfitt uppdráttar“ í hægri flokkum og komist þar ekki til metorða. En vinstri menn séu hins vegar svo miklir „jafnréttissinnar“. Og þessu trúir fólk!
Jæja, hvort ætli konur séu nú hærra hlutfall af þingflokki Sjálfstæðisflokksins eða til dæmis Vinstri-grænna? Það þarf nú varla að spyrja, það getur varla verið sambærilegt? Í Sjálfstæðisflokknum eiga konur svo „erfitt uppdráttar“, þar er þeim „haldið niðri“ sko, eins og vinstri menn þreytast ekki á að fullyrða. Það þarf nú ekki einu sinni að bera saman þessa tvo flokka, þennan gamaldags karlaflokk, Sjálfstæðisflokkinn, og svo hinn nútímalega jafnréttisflokk Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, flokkinn sem sérstaklega er byggður á „kvenfrelsi“. Auðvitað vita allir án þess að þurfa einu sinni að athuga það að konur hafa sterkari stöðu í kvenfrelsisflokknum.
Já menn vita það án þess að athuga það. En ekki ef þeir athuga það. Því þá kemur í ljós að konur eru hærra hlutfall af þingflokki Sjálfstæðisflokksins en Vinstri-grænna. En það eru hins vegar vinstri-grænir sem tala daginn út og daginn inn um stöðu kvenna í Sjálfstæðisflokknum.
Og þær konur sem hafa orðið ráðherrar á Íslandi, úr hvaða flokkum ætli flestar þeirra hafi nú komið? Það er nú reyndar úr karlaflokkunum Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. En kvenréttindasinnarnir vinstri og grænu, sem áður hétu Alþýðubandalagið, hvað ætli þeir hafi treyst mörgum konum til ráðherradóms? Engri vitaskuld. En þeir tala látlaust um stöðu kvenna innan annarra flokka. Ef kvenréttindi eru mæld í árangri kvenna þá eru vinstri grænir kvenréttindasinnar að því leyti einu að þeir eru á móti körlum í öðrum flokkum.