Rétt áður en þingmenn náðu að afgreiða fjárlög næsta árs kom fyrrverandi fjármálaráðherra landsins af afli inn í fjárlagaumræðuna. Ekki var aðeins um skyndisókn ráðherrans fyrrverandi að ræða, heldur kom hún einnig úr óvæntri átt, frá aðalfundi Evrópusambands ólympíunefnda sem nú er haldinn hér á landi. Í ávarpi sínu á aðalfundinum fór ráðherrann fyrrverandi mikinn um ágæti íþrótta, hann sparaði ekki stóru orðin og sagði meðal annars: „Öflug íþróttaiðkun almennings er örugglega besta fjárlagaaðgerð í öllum löndum og því væri réttast að fjármálaráðherrann sæi einnig um íþróttamálin. Það er í rauninni bókhaldsvilla í ríkisreikningum að færa framlög til íþrótta sem útgjöld. Þau á frekar að bókfæra sem sparnað eða fjárfestingu. Vona ég að Evrópusambandið og Alþjóðabankinn beiti sér fyrir slíkri leiðréttingu á reikningsskilum aðildarríkja.“
Hversu mikið sparar ríkissjóður á útgjöldum til forsetaembættisins? |
Það er ekki öll vitleysan eins, svo mikið er víst. Þetta minnir óneitanlega á þá tíð þegar þessi sami maður gegndi embætti fjármálaráðherra og hafði ekki nema hóflegar áhyggjur af því hvort þær tölur sem hann kynnti úr bókhaldi ríkisins væru réttar eða rangar. Þar hefur hann auðvitað vilja ganga á undan með góðu fordæmi og ekki viljað að bókhald ríkisins sýndi rétta stöðu ríkisfjármála en væri þess í stað tæki til að fela óþægilegar staðreyndir. Og nú má sem sagt nota það til að fela þá staðreynd að íþróttir kosta ríkið, þ.e. skattgreiðendur, peninga. Þegar aðalfundur kúabænda verður haldinn mun þessi fyrrverandi fjármálaráðherra líklega leggja til að útgjöld ríkisins til landbúnaðar verði færð sem sparnaður eða fjárfesting og tollahindranir verða sennilega til samræmis að færast sem erlend fjárfesting. Og ef þessari góðu bókhaldsaðferð fjármálaráðherrans fyrrverandi er beitt á öll þau „góðu mál“ sem skattgreiðendur eru látnir niðurgreiða má finna út að ríkisútgjöld eru á núlli, fjárfestingar eru geysimiklar og sparnaður enn meiri. Ríkissjóður græðir því að öllum líkindum tugi milljarða króna á hverju ári samkvæmt þessari aðferð og skattgreiðendur mega búast við drjúgri árlegri endurgreiðslu úr ríkissjóði í stað skattgreiðslu nú. Sú var að vísu ekki raunin þegar þessi fyrrverandi fjármálaráðherra gegndi því embætti, þá var saumað að skattgreiðendum af slíkum ákafa að ráðherrann fékk viðurnefnið Skattmann.
Nú er svo sem ef til vill engin ástæða til að taka nokkurt mark á þessum fyrrum fjármálaráðherra, sem nú um stundir gegnir embætti forseta lýðveldisins, og ef til vill alveg óþarfi að finna að því þó hann láti yfirgengilega vitleysu út úr sér. Líklega er réttast að taka ekkert mark á þessu embætti lengur, enda augljóst að kjósendum finnst það lítils virði og vilja sem minnst úr því gera.