Undanfarin tæp sex ár hefur Vefþjóðviljinn amast af og til við svonefndum skattaafslætti vegna hlutabréfakaupa. Hefur hann jafnan verið einn um þetta nöldur. Nú er þó svo komið að afsláttur vegna hlutabréfakaupa verður felldur niður frá og með næstu áramótum.
„Skattar og gjöld eiga að vera almenn og hófstillt. Þeir sem leggja til ýmsar undanþágur eru í raun ekki að biðja um annað en að skattar hækki á flest en lækki á fátt með þeim aukaverkunum að skattkerfið verður flóknara og dýrara fyrir þá sem greiða skattana, þá sem innheimta þá og ekki síst fyrir ríkið sem eyðir þeim.“ |
Skattaafsláttur þessi, sem á rætur sínar að rekja aftur til ársins 1984, er eins og svo mörg önnur sértæk úrræði ætlaður til að breyta hegðun almennings og stýra neyslu hans. Í þessu tilviki átti hann að hvetja menn til hlutabréfakaupa og hefur vissulega gert það í einhverjum mæli.. Ekki síst á meðan menn gátu greitt hlutabréfin með innistæðulausri ávísun á gamlársdag og verið búnir að selja þau aftur nógu snemma á fyrsta virka degi eftir áramót og leggja inn á tékkareikninginn sinn til að hægt væri að leysa ávísunina út. Fyrir þessa leið var þó girt með því að setja lágmarkseignartíma á bréfin þegar menn fóru að nýta sér þessa smugu í stórum stíl.
Um þessa neyslustýrinug sagði Vefþjóðviljinn í október 1998: „ Ríkið telur margt vera í sínum verkahring. Fyrir nokkru skipaði fjármálaráðherra starfshóp sem átti að móta tillögur um hvernig mætti efla sparnað í landinu. Einhverjum fyndist nú eðlilegra að skuldseigur ríkissjóður einbeitti sér að eigin sparnaði en skipti sér síður af því hvort fólk kýs að eyða fé sínu strax eða síðar. En látum það vera. Meðal þess sem starfshópurinn leggur til, er að lögum verði breytt á þann veg að skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa falli ekki niður á næstu árum. Mörgum finnst einstaklega snjallt að veita þeim sem kaupa bréf í hlutafélögum afslátt frá tekjuskatti. Er í því sambandi bent á, að sú tilhögun hefur eflaust flýtt fyrir þróun hlutabréfamarkaðar, flýtt fyrir því að almenningur spari með hlutabréfakaupum.
En þó margir, og ekki síst þeir sem hafa milligöngu um kaup og sölu hlutabréfa, séu mjög hrifnir af skattaafslætti til hlutabréfakaupenda, verður að telja að gallarnir við slíkan afslátt séu fjölmargir. Vefþjóðviljinn hefur oft hvatt til þess að skattkerfið verði einfaldað svo sem mest má vera. Hefur þannig ítrekað verið lagt til að svokallaður „sjómannaafsláttur“ verði lagður af. Þó flestir telji sjómenn alls góðs maklega þá verður ekki horft framhjá því að meginreglan hlýtur að vera sú að menn séu jafnir fyrir skattalögunum. Engum dytti í hug að samþykkja sérstaka skattahækkun á alla þá sem ekki vinna á sjó. Slíkt væri þó engu verra en „sjómannaafsláttur“. Eins dettur líklega fæstum í hug að leggja til að hækkaður verði skattur allra þeirra sem ekki hafa keypt sér hlutabréf nýlega. Þó væri það litlu verra en að lækka skatt allra þeirra sem hafa keypt sér hlutabréf. Rétt eins og Vefþjóðviljinn hvetur enn til að sjómannaafsláttur verði felldur niður, leggur hann til að skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa fari sömu leið. Við það mætti strax lækka tekjuskattsprósentuna um eitt prósentustig.“
Svipuð rök eiga við um ýmsa aðra neyslustýringu. Nýlegt lýðskrum um niðurfellingu virðisaukaskattar af barnafötum er í raun ekkert annað en tillaga um að neytendur annars varnings greiði skattinn fyrir þá sem kaupa barnaföt. Með því að fella niður virðisaukaskatt er verið að hvetja menn til að kaupa meira af þeim vörum en ella: Kaupa meira af dýrum tískufötum á krakkana en þeim mun minna af bókum, hljóðfærum og íþróttavörum svo nokkur dæmi séu nefnd.
Mismunandi tollar og vörugjöld á ýmsar vörur eru sama marki brennd. Skattar og gjöld eiga að vera almenn og hófstillt. Þeir sem leggja til ýmsar undanþágur eru í raun ekki að biðja um annað en að skattar hækki á flest en lækki á fátt með þeim aukaverkunum að skattkerfið verður flóknara og dýrara fyrir þá sem greiða skattana, þá sem innheimta þá og ekki síst fyrir ríkið sem eyðir þeim.