Á
RONJEREMY |
Ron Jeremy mættur í stúdíó. |
dögunum kom hingað til lands erlendur leikari er Ron Jeremy kallast. Er hann frægur víða um heim af kvikmyndaleik sínum en alls mun hann hafa komið fram í einum fjögur þúsund kvikmyndum og hafa margir fengið heiðurslaun fyrir minna starf. Þær kvikmyndir, sem maður þessi leikur einkum í, munu eiga það sammerkt að leikararnir eru tíðum fáklæddir við leik sinn, en gríðarlegur fjöldi fólks er mjög áhugasamur um slíkar kvikmyndir eins og kunnugt er. Er því ekki að efa að Jeremy hefur með leik sínum veitt fjölda fólks ánægju og að því leyti verið nýtari borgari en margur annar. Var því skiljanlegt að margir vildu ná fundi leikarans hér á dögunum og jafnvel heyra hvað hann hefði að segja um lífið og tilveruna.
Ekki voru allir þó áhugasamir og til var fólk sem var virkilega óánægt með komu þessa manns. Einni konu, fréttamanni hjá Stöð 2, varð meira að segja svo misboðið að hún neitaði með öllu að vera viðstödd þegar leikarinn var gestur í fréttaþætti sem hún þó að öðru jöfnu sér um ásamt öðrum manni. Einhverra hluta vegna nægði það svo ekki, heldur hefur landsmönnum sérstaklega verið skýrt frá þessari glæsilegu frammistöðu prinsip-konunnar. Fréttakonan varð svo sjálf gestur í skemmtiþætti Ríkissjónvarpsins síðastliðið laugardagskvöld og var hetjunni þar hrósað fyrir að hafa staðið svona vel við sannfæringu sína.
Sannfæringu sína! Það mætti halda að þessi erlendi maður væri alræmdur fjöldamorðingi. Ekki góðlegur leikari sem ekki er vitað til að hafi gert flugu mein þó hann hafi að vísu gert það að lífsstarfi sínu að leika í kvikmyndum sem sumir hatast við. Hingað til hafa fréttamenn rætt við fólk af ýmsu tagi og það án þess að í því hafi verið talið felast sérstakt samþykki fréttamannsins við því sem viðmælendur hans hafa gert um dagana. Tímarit birta viðtöl við dæmda morðingja. Á dögunum var sýnd sérstök kvikmynd um síbrotamann nokkurn og þótti ýmsum hún nú ekki svo lítil skemmtun. Hvað ætli þeir, sem hrósa fréttakonunni í hástert fyrir að „vera sannfæringu sinni trú“, segi um þá sem stóðu að kvikmyndinni um síbrotamanninn? Eða þá sem taka viðtöl við dæmda glæpamenn og birta í sjónvarpi og tímaritum? Þeim þykir líklega sem þessir fjölmiðlamenn séu annað hvort að vinna í blóra við „sannfæringu sína“ eða séu einfaldlega sáttir við það sem viðmælendur þeirra hafa á samviskunni.
Hvað ætli menn segðu ef hinn erlendi gestur, sem fréttakonan staðfasta neitaði að hitta, hefði ekki leikið í þessum kvikmyndum en hefði hins vegar gert eitthvað annað af sér? Hvað ætli menn segðu ef fréttamaður hrósaði sér af því fyrir framan alþjóð að hafa neitað að tala við mann sem hefði einhvern tíma fengið dóm fyrir til dæmis að lemja einhvern? Eða hefði einhvern tíma selt svikna vöru? Slíkur maður hefði þó gert á hlut einhvers. Brotið rétt einhvers. Væri ekki enn flottara að neita að tala við hann? Ef Stöð 2 tekur einhvern tíma upp á því að tala við slíkan mann, ætli fréttakona þessi haldi þá ekki áfram að „standa bara við sannfæringu sína“ og gangi út um leið og fanturinn mætir í stúdíóið? Að minnsta kosti virðist hún bera það undir „sannfæringu sína“ hvort menn séu þess verðir eða ekki að hún tali við þá. Héðan í frá verður litið svo á að þessi fréttakona tali ekki við aðra en þá sem sannfæring hennar lyndir við. Með vali sínu á viðmælendum verður þessi fréttakona því framvegis ein um það meðal íslenskra fréttamanna, að greina frá sinni eigin sannfæringu á hverju kvöldi.