Laugardagur 7. september 2002

250. tbl. 6. árg.

Eftir að Guðmundur Ingi Kristjánsson á Kirkjubóli féll frá á dögunum munu nú látin öll þau skáld sem áttu ljóð í þeirri fremur þykku bláu bók, Skólaljóðum, sem íslenskir barnaskólanemendur lásu árum saman. Nú er vafalaust bannað að kenna þá bók og nútímaleg hefti komin í staðinn, full af prósa sem enginn maður mun nokkru sinni geta lært enda sjálfsagt ekki til þess ætlast. Hvað um það, það er víst þróun eins og annað og hver getur sett sig upp á móti henni? Guðmundur Ingi var sérstætt skáld og orti ekki síst um sveitastörf en hann var um langt árabil bóndi vestur á fjörðum. Bar hann mikla virðingu fyrir starfi bóndans og mun einn um þá kurteisi að þéra jafnvel hrúta sína, eins og hann gerði í kvæði einu sem víðfrægt varð á sinni tíð. Nú á dögum munu fáir hafa mörg ljóða hans á hraðbergi þó víst muni margir kannast við sönginn um hana Selju litlu sem fæddist fyrir vestan. Guðmundur Ingi var ungmennafélagsmaður mikill og framsóknarmaður eftir því og lét sig meðal annars hafa það að fara í framboð á vegum þess flokks. Árið 1946 orti hann um það framboð lítið kvæði sem lauk á þessu erindi:

Þótt stjórnmálin hiti minn hug á ný
og herði mig Framsóknar kraftur
þá veiti ég enga völ á því
að vera í framboði aftur.

Þetta má rifja upp í tilefni af því að nú fara framsóknarþingmenn um landið að vitja goðorðsmanna sinna og leggja á ráð um framboð til Alþingis að ári. Myndi nú ekki margur í þeim hópi gera vel í því að fara að dæmi Guðmundar Inga og neita með öllu að vera í kjöri að nýju?