Þegar ekið er um Ísland, hvort sem er um þéttbýlið á höfuðborgarsvæðinu eða um landsbyggðina, verður mönnum ljóst að vel er gert við þá sem stunda íþróttir. Eða öllu heldur, mönnum verður ljóst að of vel er gert við þá sem stunda íþróttir. Hvert sem komið er í „þéttbýli“ á landsbyggðinni er fyrir reisulegt íþróttahús eða fagurgrænn fótboltavöllur nema hvort tveggja sé. Og á höfuðborgarsvæðinu úir og grúir af íþróttamannvirkjum, bæði fótboltavöllum og húsum, jafnvel húsum sem rúma heilu fótboltavellina. Er þetta eitthvert vit? Er þörf fyrir allt þetta? Er fjármunum almennings varið á hagkvæmasta máta með öllum þessum íþróttamannvirkjum?
„Á vanda skattgreiðenda gagnvart ásókn íþróttafélaganna í vasa þeirra er ekki til nein töfralausn. Þetta er sami vandi og skattgreiðendur standa frammi fyrir gagnvart menningarforkólfum, bændum og öllum öðrum sem telja sig einhverra hluta vegna eiga heimtingu á að aðrir greiði þeim fé svo þeir geti áfram stundað áhugamál sitt eða atvinnu.“ |
Svarið er nei, fjármunum almennings er illa varið með öllum þeim íþróttamannvirkjum sem byggð hafa verið fyrir skattfé. Þetta má sjá, eins og áður sagði, með því að fara í bíltúr um landið, en þetta er einnig augljóst af annarri ástæðu. Sú staðreynd að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, skuli greiða mikinn meirihluta kostnaðar við þessi mannvirki felur í sér að of miklu hlýtur að vera eytt í þau. Ef íþróttafélög þyrftu sjálf að standa straum af kostnaðinum við starfsemi sína væri farið sparlegar með fé og ekki byggt af eins miklum „metnaði“ – sem er orð sem oft er notað þegar verið er að sóa almannafé. Íþróttafélögin eru dæmigerður þrýstihópur sem sækir í vasa almennings, og þessi þrýstihópur er meira að segja með þeim allra skæðari. Stjórnmálamenn fá iðulega að finna fyrir því frá þeim sem sækja í skattfé fyrir hönd íþróttafélaganna, að það borgi sig fyrir þá að styðja íþróttirnar. „Ef þú styður okkur styðjum við þig,“ eru skilaboðin sem stjórnmálamennirnir fá, og fáir standast þann þrýsting sem þeir verða fyrir af hálfu þessa þrýstihóps. Stjórnmálamenn óttast vel skipulagðar klíkur þó þær kunni að vera tiltölulega fámennar, því þeir vita sem er að þær þekkja vel sérhagsmuni sína en skattgreiðendur eru dreifður hópur sem veit illa af því hvað það kostar hann þegar eytt er út og suður í „góð mál“.
Einhverjir segja nú sjálfsagt sem svo að íþróttir séu nú nauðsynlegar, þær bæti heilsu fólks og því er jafnvel haldið fram að þær hafi forvarnargildi gagnvart fíkniefnaneyslu. Það eru nýjustu – en þó ekki glæný – rök þeirra íþróttamanna sem sækja í skattfé. Nú má vel vera að ýmsum séu íþróttir nauðsynleg afþreying og heilsubót, ekki er ástæða til að efa það. Sú staðreynd réttlætir þó engan veginn að þessir menn fari í vasa annarra til að stunda sína heilsurækt og afþreyingu. Til er fjöldi fólks sem eyðir þúsundum króna úr eigin vasa í heilsurækt sem einkaaðilar reka og keppir við hina niðurgreiddu heilsurækt íþróttafélaganna. Hvers á þetta fólk að gjalda að þurfa bæði að greiða eigin heilsurækt og annarra? Er einhver sanngirni í því? Þar fyrir utan er hægt að bæta heilsuna með öðrum hætti en þeim að stunda fjölmennar og plássfrekar íþróttir hjá íþróttafélögum. Þar koma göngutúrar vel til greina, svo dæmi sé tekið, en þeir þykja með hollustu hreyfingu sem völ er á. Hvernig er þá með forvarnargildi íþróttanna, skyldi ekki vera réttlætanlegt að fara í vasa skattgreiðenda og ná þar í nokkra milljarða í nafni forvarna? Fyrir utan allt annað sem skattgreiðendur borga í forvarnir auðvitað. Nei, það verður ekki séð að þau rök dugi ein sér til að hafa fé af skattgreiðendum. Forvarnarökin eru vafasöm, enda ekki eingöngu stórstúkulifnaður á öllum hópum íþróttamanna og engin trygging er fyrir því að ungmenni sem stunda íþróttir leiðist ekki út í ofneyslu áfengis eða annarra fíkniefna. Það þekkja allir sem haft hafa einhver kynni af ungmennum og íþróttaiðkun þeirra. En þó vera kunni að þeir íþróttamenn sem vinna helstu afrekin séu yfirleitt lausir við þá fíkn sem hér um ræðir, er ekki þar með sagt að það sé vegna íþróttanna, og þaðan af síður vegna styrkja hins opinbera til íþróttafélaganna. Færa mætti að því rök að þeir sem eru nægilega viljasterkir til að skara fram úr í íþróttum eigi síður á hættu að verða fíkniefnum að bráð, hvort sem þeir stunda íþróttir eða ekki.
En fyrst íþróttir eru of dýrar, hvað er þá til ráða? Á vanda skattgreiðenda gagnvart ásókn íþróttafélaganna í vasa þeirra er ekki til nein töfralausn. Þetta er sami vandi og skattgreiðendur standa frammi fyrir gagnvart menningarforkólfum, bændum og öllum öðrum sem telja sig einhverra hluta vegna eiga heimtingu á að aðrir greiði þeim fé svo þeir geti áfram stundað áhugamál sitt eða atvinnu.Vandinn eru ólíkir hagsmunir og sú staðreynd að fólk vinnur jafnan að eigin hagsmunum. Lausnin felst líklega helst í því að skattgreiðendur séu meira vakandi, láti oftar í sér heyra þegar þeim mislíkar einhver sóun, hvort sem hún er stór eða smá. Ef almenningur kvartaði við stjórnmálamenn yfir því að verið sé að byggja allt of mikið yfir íþróttastarfsemi stæðu stjórnmálamennirnir frekar gegn kröfum íþróttaþrýstihópsins. En á meðan áróðurinn er einhliða munu áfram rísa of mörg íþróttahús og of margir íþróttavellir. Og það sem meira er þá munu sveitarfélög halda áfram að bjarga íþróttafélögum frá skuldum sem þau hafa komið sér í. Því eins og menn þekkja þá nægir íþróttafélögunum ekki að fá alla aðstöðu næstum endurgjaldslausa, mörg þeirra fara á hausinn með reglulegu millibili og láta skattgreiðendur þannig halda uppi rekstri félaganna umfram þá rekstrar- og byggingarstyrki sem þeim eru ætlaðir.