Þegar fjallað er um tekjuskiptingu heimsins er undantekningarlítið gert ráð fyrir að hún sé sífellt að verða ójafnari. Þessu til staðfestingar er meðal annars vísað í Sameinuðu þjóðirnar sem hafa gefið það út að árið 1960 hafi ríkustu 20% heimsins haft 30 sinnum hærri tekjur en fátækustu 20%, en árið 1997 hafi tekjumunurinn verið orðinn 74 faldur. Fyrir utan hvað slíkir útreikningar segja lítið um aðstæður fólks – allir geta verið orðnir ríkari þó munurinn aukist – þá eru niðurstöður þeirra einfaldlega rangar, ef marka má nýja rannsókn Xavier Sala-i-Martin hjá Columbía háskólanum, en um þá rannsókn er fjallað í The Economist. Þar kemur fram að Sala-i-Martin sýni fram á að þar sem Sameinuðu þjóðirnar nota gengi gjaldmiðla óbreytt, en taka ekki tillit til mismunandi verðlags milli landa, þá ýki útreikningar þeirra mjög þann tekjumun sem um sé að ræða. Í fátækum löndum er verð jafnan mun lægra en í ríkum löndum og þegar það hefur verið tekið með í reikninginn hefur munurinn frá 1960 til 1997 ekki vaxið úr því að vera 30 sinnum meiri í að vera 74 sinnum meiri, heldur úr 11 sinnum í 15 sinnum meiri. Og sé litið á tímabilið 1980 til 1997 hefur munurinn minnkað, því hann var 16 faldur árið 1980.
Annað sem skekkir myndina er mismunandi fólksfjöldi ríkja. Í Kína og á Indlandi hefur almenningur efnast á síðustu áratugum en þessi fjölmennu lönd vega ekki þyngra en smáríki á borð við Ísland í samanburði milli landa og þess vegna virðist tekjuskipting í heiminum ekki minnka eins mikið ef einu stóru ríki gengur vel eins og ef mörg lítil bæta sig. Sala-i-Martin gerir ráð fyrir þessari mismunandi stærð í útreikningum sínum og þegar það er gert segir hann að niðurstaðan sé sú að tekjubil fari minnkandi en ekki vaxandi, eins og oft sé haldið fram. Það sé því að draga saman með fólki í heiminum en ekki í sundur. Og þegar Sala-i-Martin lítur bæði á tekjuskiptingu innan landa og á milli landa, þá segir hann að engin merki sé hægt að finna um aukinn tekjumismun í heiminum.
Þetta eru athyglisverðar niðurstöður þegar horft er til þess hvernig opinber umræða um þessi mál er gjarna. Rannsókn Sala-i-Martin svarar því hins vegar ekki – og á ekki að svara því – hvers vegna sum lönd eru rík og önnur fátæk. Skýringin á því er hins vegar sú, eins og oft hefur verið sýnt fram á, að sum lönd búa við meira efnahagslegt frelsi en önnur og traustara réttarfar. Þar sem athafnafrelsi og réttarríki eru fyrir hendi, þar nær fólk árangri og tekst að bæta kjör sín. Þar sem þessi skilyrði eru ekki til staðar – og má nefna stóran hluta sunnanverðrar Afríku sem dæmi – þar er stór hætta á viðvarandi fátækt.