Frá árinu 1991 til ársins 2000 fjölgaði handtökum vegna maríúana í Bandaríkjunum úr 300.000 í 750.000 og fangelsi landsins eru yfirfull vegna fíkniefnabrota. Á sama tíma og lögreglan eyðir orku í að eltast við þá sem hafa undir höndum þetta fíkniefni er hún ekki að fást við alvarlega glæpi og meðal annars þess vegna eykst stuðningur við breytta skipan fíkniefnamála. Eitt dæmi um þetta er frá Nevada, sem þar til fyrir skömmu bjó við ströngustu fíkniefnalöggjöf Bandaríkjanna. Þar til í október síðastliðnum var löggjöfin þannig að sá sem var tekinn við að reykja maríúana átti yfir höfði sér fangelsisdóm fyrir það sem telst vera alvarlegt afbrot. Árið 2000 var notkun efnisins í lækningaskyni lögleyfð og þá var einnig farið að líta á það sem smáglæp að finnast með lítið magn af maríúana á sér.
Að því er segir í Las Vegas Review Journal kann að vera að kosið verði í haust um að slaka enn frekar á reglum um maríúana og verður fylkið komið með slökustu reglur af þessu tagi í Bandaríkjunum verði tillaga þessa efnis samþykkt. Nevadabúar hafa reynst jákvæðir í garð breytinga á löggjöf um notkun maríúana í læknisfræðiskyni í tveimur atkvæðagreiðslum sem haldnar voru árin1998 og 2000. Í þeirri fyrri var stuðningurinn 59% og 65% í þeirri síðari. Ekki er hægt að fullyrða um niðurstöðuna úr þeirri kosningu sem líklega er framundan, en miðað við þá þróun sem verið hefur, bæði í Nevada og annars staðar, er ekki ósennilegt að losað verði enn frekar um fíkniefnalöggjöfina.
Ástæður þeirra breytinga sem þarna eiga sér stað eru líklega þær að fólk gerir sér æ betur grein fyrir að sú barátta sem háð hefur verið gegn fíkniefnaneyslu gengur ekki upp. Stríðið svokallaða við fíkniefnin hefur ekki bætt ástandið. Framboð efnanna er nægt og fíkniefnatengdum glæpum fer fjölgandi. Loks hefur það sín áhrif að fólk er farið að átta sig á að veikari efni á borð við hass eða maríúana eru ekki fyrsta skrefið í þá átt að hefja neyslu sterkari efna. Þess vegna eru margir nú þeirrar skoðunar að rétt sé að lögleyfa þessi veikari efni.