Áheimasíðu Samtaka atvinnulífsins er að finna athyglisverða umfjöllun um umsvif ríkisins í atvinnulífinu. Þróunin á árunum 1991 til 1999 var sú að ríkið jók þátttöku sína í atvinnulífinu í krónum talið, þ.e. þegar mælt er eigið fé eða velta þeirra fyrirtækja sem ríkið á beint eða óbeint hlut í. Þetta gerist þrátt fyrir að ríkið hafi á þessu tímabili selt fyrir alls um 25 milljarða króna í um 25 fyrirtækjum. Frá 1999 hefur einkavæðingin haldið áfram og um 6 milljarðar króna verið seldir. Og ef að líkum lætur er stutt í að allmargir milljarðar enn fari við sölu á því sem eftir er í Búnaðarbanka og Landsbanka. Þessi aukning á hlut ríkisins í krónum talið er athyglisverð í ljósi þess að tugir milljarða króna hafa verið seldir, og mun skýringin liggja í vexti orku-, fjarskipta- og fjármálageirum atvinnulífsins, en þar hefur ríkið verið býsna aðsópsmikið. En þó þessi aukning eigin fjár og veltu fyrirtækja sem ríkið á hlut í hafi orðið á tímabilinu 1991 til 1999 segir það ekki alla söguna, því þegar hlutur ríkisins af atvinnulífinu í heild er skoðaður, sést að á mælikvarða eigin fjár minnkar hann úr 26% í 17% á þessu tímabili, sem þýðir að einkageiri atvinnulífsins dafnar betur en ríkisgeirinn og er það ánægjuefni.
Samtök atvinnulífsins segja þrjá fjórðu hluta eigin fjár ríkisins í atvinnulífinu árið 1999 hafa verið í sjö fyrirtækjum, sem séu Landsvirkjun, Landssíminn, Rafmagnsveitur ríkisins, Landsbankinn, Íbúðalánasjóður, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Búnaðarbankinn. Þar sem bankarnir eru væntanlega á leið út af listanum getur ríkið farið að snúa sér að hinum fyrirtækjunum af krafti. Afar auðvelt væri, svo dæmi sé tekið, að selja Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, enda er hann ekki að gera nokkurn hlut sem einkaaðilar geta ekki gert jafn vel eða betur. Svipaða sögu er að segja um Íbúðalánasjóð, ekki væri miklum vandkvæðum bundið að losa hann undan ríkinu. Raunar eru öll þessi fyrirtæki auðseljanleg og einkavæðing þeirra hefur þegar verið undirbúin með ýmsum hætti.
Vegna þess hve mikilvægt er að einkavæðing fyrrnefndra fyrirtækja geti gengið greiðlega áfram er ekki lítils virði að stórir fjárfestar skuli sýna því áhuga að losa ríkið við umtalsverðan hlut í Landsbankanum, en ríkið á enn 48% í bankanum. Það vekur hins vegar upp slæmar minningar þegar einn af þingmönnum Framsóknarflokksins telur heppilegra að selja nú í Búnaðarbankanum. Þetta er nefnilega ekki ósvipað því þegar eiga þurfti við Alþýðuflokkinn í ríkisstjórninni sem sat árin 1991-1995, en þá var ekki unnt að selja neitt í bönkunum vegna andstöðu Alþýðuflokksins. Með þessum hætti geta menn sagt vera hlynntir einkavæðingu, en þegar á hólminn er komið telja þeir bara aldrei að rétt leið hafi verið valin. Ástæða er til að óttast að framsóknarmenn séu að beita þessari aðferð nú vegna þess tilboðs sem borist hefur í Landsbankann.