Þeir sem hafa unun af því að tjá sig geta óhræddir rætt um að minnsta kosti tvö mál án þess að þekkja á þeim haus eða sporð. Annað er nektardans. Hverjum sem er virðist óhætt að segja hvað sem er um þá sem stunda nektardans. Það virðist jafnvel sérstakur kostur í umræðunni um dansinn að hafa aldrei séð hann. Í upphafi var rætt um að bjarga stúlkum frá Austur-Evrópu úr klóm íslenskra dólga og senda þær aftur heim til Eistlands í góðu störfin og alsnægtirnar sem bíða þeirra. Fljótlega komu menn þó upp um sig og fóru að ræða um í „hverslags þjóðfélagi við viljum búa“ og hvort það sé „boðlegt að hafa svona starfsemi í hjarta miðbæjarins“. Í baráttunni fyrir borgarstjórnarkosningarnar virtust flestir frambjóðendur sammála um að koma þessari starfsemi „út fyrir miðborgarmörkin“. Það er vafalaust liður í mannúðarstarfi í þágu eistneskra dansmeyja að þær dansi fremur í skemmum og bílskúrum á Skemmuvegi og Hyrjarhöfða en í „hjarta miðborgarinnar“. Það hljóta allir að sjá að þar fer betur um þær á allan hátt.
Hitt er umhverfismál. Þar eru orð einnig hætt að hafa nokkra merkingu vegna þess hve frjálslega er farið með allar staðreyndir og stóryrði eru lítt spöruð. Umhverfismál komu til umræðu í fyrrnefndri kosningabaráttu. Það mál snerist um spildu á sunnanverðu Geldingarnesi. Fyrst ræddu menn um þar færi betur á að hafa íbúðir en höfn. Það útskýrði málið svona nokkurn veginn. En þá varð líka allt vitlaust. Ekki var nóg með að stöðva þyrfti ægilegt grjótnám á nesinu heldur varð einnig að stöðva „umhverfisslys“. Og ekki nóg með það: „Stöðvum tvöfalt umhverfisslys!“ Og auðvitað fóru frambjóðendur allra framboða eins rangt með tölur í þessu samhengi og mögulegt var. Vinstri menn í vinstri flokkunum sem hæst hafa í nafni umhverfisins geta kannski lært eitthvað af þessu máli. Ef til vill átta þeir sig á því hve ga-ga umræða verður stundum þegar menn byrja að belgja sig í nafni umhverfisins. Fjölmiðlar geta einnig lært af þessu. Það er ekki alltaf innistæða fyrir öllum þeim hörmungum, slysum og skelfilegu afleiðingum sem sagt er að verði vegna athafna mannsins.