Jóhanna Sigurðardóttir hefur setið lengi á þingi vegna þess hæfileika síns að vera einhver allra mesti lýðskrumari landsins. Og þó sumum finnist ef til vill ekki mikið til þessa hæfileika koma, þá getur hann engu að síður tryggt stjórnmálamanni, sem hefur fátt eða ekkert fram að færa, endurkjör ofan á endurkjör, kosningar eftir kosningar. Þetta er þess vegna ekki ónýtur eiginleiki fyrir þá sem þrá að sitja á þingi eða í sveitarstjórnum. Nýjasta útspil Jóhönnu er að fara fram á að barnabílstólar verði undanþegnir virðisaukaskatti. Þar komst þingmaðurinn aldeilist í feitt því allir – fyrir utan hina illu ríkisstjórn sem nú situr – hljóta að sjá að það er þjóðþrifamál að fella niður virðisaukaskatt af barnabílstólum. Sér í lagi þegar Jóhanna hefur upplýst að þetta muni aðeins kosta ríkissjóð 1-1½ milljón króna á ári, en gæti lækkað verð á stólunum um 4-5.000 krónur, „sem í mörgum tilvikum getur ráðið úrslitum um það hvort ungbarnafjölskyldur hafa efni á því að kaupa barnabílstól“, eins og Jóhanna orðar það.
Hversu lágt geta menn lagst í lýðskruminu? Jóhanna Sigurðardóttir útskýrir það með nýjustu tillögu sinni um barnabílstóla. |
Áður en lengra er haldið er rétt að líta á tölurnar sem Jóhanna nefnir máli sínu til stuðnings. Hún heldur því fram að barnabílstólar muni lækka um 4 – 5.000 krónur við að fella niður virðisaukaskattinn, en staðreyndin er sú að lækkun stólanna yrði á bilinu 1.500 – 5.000 krónur og yfirleitt mun nær lægri tölunni en þeirri hærri. 1.500 krónur eru hins vegar ekki eins krassandi og 5.000 krónur og þess vegna borgar sig ekki að nefna þá tölu ef maður vill slá sig til riddara. Hér má líka skjóta því inn að hægt er að leigja barnabílstóla og kostnaðurinn við það er ámóta mikill og við að drekka einn til tvo litla bjóra á mánuði á öldurhúsi. Staðreyndin er sem sagt sú að kostnaður foreldra við að hafa börn sín í bílstólum er ekki umtalsverður og skýrir alls ekki að hluti þeirra skuli láta undir höfuð leggjast að hafa börnin í stólum, eins og Jóhanna heldur fram. Og þótt barnabílstólar myndu lækka um 1.500 krónur er nánast ósvífni að halda því fram að foreldrar létu þá upphæð ráða úrslitum um öryggi barna sinna.
Enda snýst málið ekki um öryggi barna í bílum heldur öruggt endurkjör Jóhönnu Sigurðardóttur. Hefði Jóhanna raunverulegan áhuga á velferð þeirra sem ferðast um í bílum, bæði barna og fullorðinna, myndi hún hvorki eyða eigin tíma né annarra í að gata virðisaukaskattskerfið og auka skrifræði í kringum skattkerfið. Hún myndi þess í stað beita sér fyrir stefnubreytingu hjá Samfylkingunni þegar kemur að bílasköttum, en Samfylkingin er sá flokkur sem einna helst allra flokka – jafnvel að vinstrirauðum meðtöldum – beitir sér gegn öryggi í umferðinni. Þetta gerir flokkurinn með tvennum hætti, annars vegar með því að heimta sérstaka aukaskattlagningu á bensín, eins og flokkurinn gerði í síðustu kosningum. Hins vegar með því að standa gegn lækkun sérstakra skatta á stóra bíla. Staðreyndin er sú að stórir bílar eru að jafnaði öruggari en litlir bílar, en þeir eyða líka að jafnaði meira bensíni. Með því að berjast fyrir hærra bensínverði og hærri gjöldum á stóra bíla er Samfylkingin, og þar með talin Jóhanna Sigurðardóttir, að vinna gegn umferðaröryggi. Þarna er um háar fjárhæðir að ræða, tugi eða hundruð þúsunda, sem raunverulega skipta máli við val fólks á bíl og verða oft til þess að fólk neyðist til að kaupa sér minni og síður öruggan bíl en ella. Stjórnmálamenn með slík baráttumál ættu að sjá sóma sinn í að bjóða landsmönnum ekki upp á þann málflutning að þykjast vilja auka öryggi í umferðinni með því að lækka verð barnabílstóla um fimmtán hundruð krónur.