Helgarsprokið 9. júní 2002

160. tbl. 6. árg.

Hugmyndaflugi stjórnlyndra embættis- og stjórnmálamanna virðast engin takmörk sett. Umfang laga og reglugerða um hin aðskiljanlegustu svið mannlífsins vex í veldisvís, regluverkið verið sífellt flóknara, óaðgengilegra og meira íþyngjandi fyrir borgarana. Þar sem einhver vandamál eru talin vera fyrir hendi í þjóðlífinu er alltaf lausnin að setja ný lög eða nýjar reglur og jafnvel þar sem engin sérstök vandamál eru til staðar virðist það vera skilgreint sem vandamál í sjálfu sér að reglur séu ekki fyrir hendi. Og oft er niðurstaðan sú, að með reglusetningunni sem slíkri er verið að skerða mikilvægari hagsmuni heldur en á að vernda, því grundvallarsjónarmið á borð við persónuvernd, atvinnufrelsi, vernd eignarréttarins og slík grundvallarmannréttindi verða iðulega undan að láta þegar reglugerðaliðið fær að leika lausum hala.

„…þeir sem líklegastir eru til að misstíga sig, vísvitandi eða óvart, eru nákvæmlega sömu einstaklingarnir og ólíklegastir eru til að kynna sér lög og reglur eða að fara eftir þeim.“

Nýtt dæmi um þetta eru „leiðbeinandi reglur“ borgaryfirvalda í Reykjavík um húðgötun. Reglurnar eiga að gilda um götun í eyru en sérstakar reglur eiga að gilda um götun í aðra líkamsparta. Nokkur megin atriði felast í þessum reglum; í fyrsta lagi eru gerðar kröfur um að þeir sem gera göt af þessu tagi hafi til þess sérstakt leyfi frá borgaryfirvöldum, í annan stað að ákveðinna heilbrigðissjónarmiða sé gætt við framkvæmdina og aðstæður á staðnum, í þriðja lagi að ungmenni undir 18 ára aldri hafi skriflegt leyfi frá foreldrum eða forráðamönnum til að fá götin og loks að skrá skuli nöfn og kennitölur allra þeirra sem fá þessa þjónustu.

Við setningu þessara reglna virðast mörg grundvallaratriði hafa gleymst. Í fyrsta lagi má spyrja hvort gerð gata í eyru hafi yfirhöfuð verið mikið þjóðfélags- eða heilsufarsvandamál á Íslandi. Yfirgnæfandi meirihluti kvenna og nokkur hópur karlmanna hafa látið gera slík göt í eyrnasneplana og hafa fæstir hlotið nokkurn skaða af. Í ljósi þess má efast um að yfir höfuð sé nokkur þörf á reglum af þessu tagi. Rökin sem fram hafa verið færð um meinta smithættu við götun í eyru geta allt eins átt við um fjölmörg önnur svið mannlífsins. Er ekki alveg eins smithætta af ýmsu tagi hvar sem fólk kemur saman, svo sem í strætó, sundi, skólum og víða annars staðar?

Í annan stað er erfitt að finna þessum leiðbeinandi reglum viðunandi lagastoð. Það er nefnilega svo, að stjórnvöld geta ekki sett reglur út og suður að eigin vild, heldur verða reglur frá stjórnvöldum að styðjast við heimild í lögum, settum af Alþingi með formlega réttum hætti. Reglur sem fela í sér íþyngjandi ákvæði fyrir borgana eða takmarka frelsi þeirra á einhvern hátt verða svo að styðjast við sérstaklega skýrar lagaheimildir. Ekki virðist því til að dreifa í þessu í tilviki. Lög um hollustuvernd og heilbrigðiseftirlit veita að vísu almenna heimild til setningar reglugerða og heilbrigðisreglugerð sett af ráðherra veitir almenna heimild til heilbrigðisnefnda sveitarstjórna að setja reglur um starfsemi fyrirtækja, sem þær eiga að hafa eftirlit með. Stórlega má efast um að þessar almennt orðuðu heimildir dugi sem heimild fyrir þeim íþyngjandi reglum sem finna má í reglum heilbrigðisyfirvalda í Reykjavík.

Mun þessi lokkandi maður gefa yfirvöldum langt nef eða skrá sig í gagnagrunn um tilbúin líkamsop?

Þessi skortur á viðhlítandi lagaheimild er sjálfsagt hvað augljósastur í sambandi við listann yfir þá sem láta gera göt í eyru sín. Þegar upplýsingar af þessu tagi eru skráðar og varðveittar af hálfu opinberra aðila er gerð sérstök krafa um skýra lagaheimild, sem að sjálfsögðu er ekki að finna í þessu tilviki. Og jafnvel þótt göt í eyru séu ekkert sérstakt leyndarmál hjá flestum sem fá sér þau, þá getur vel verið að einhverjum sé frekar illa við að slíkar upplýsingar séu varðveittar í fórum opinberra stofnana. Hvað um karlmenn sem láta gera slík göt í einhverju bríaríi á unglingsárum og skammast sín svo hálfpartinn fyrir það seinna, þegar þeir hafa fyrir löngu látið götin gróa og kæra sig ekki um að aðrir viti um bernskubrekin? En hvað sem því líður má efast um gildi þess að halda slíkan lista, því eins og áður er getið er mikill meirihluti kvenna með göt af þessu tagi.

Sjálfsagt eru þessar reglur settar af góðum hug eins og flestar nýjar reglur; embættismennirnir og stjórnmálamennirnir sem að þeim standa trúa því í raun og veru að með því séu þeir að láta gott af sér leiða. Þeir telja vandamálin raunveruleg og reglusetninguna einu færu leiðina til að bregðast við þeim. Í mörgum tilvikum er hér hins vegar á ferðinni misskilningur, sem byggist annars vegar á oftrú á áhrifum laga og reglna og hins vegar vantrú á heilbrigðri skynsemi venjulegs fólks. Menn gleyma því oft að flestir fullorðnir einstaklingar eru afskaplega vel færir um að sjá um sig sjálfir og þeir sem líklegastir eru til að misstíga sig, vísvitandi eða óvart, eru nákvæmlega sömu einstaklingarnir og ólíklegastir eru til að kynna sér lög og reglur eða að fara eftir þeim.