Laugardagur 8. júní 2002

159. tbl. 6. árg.

Í Bretlandi var á dögunum gerð skoðanakönnun á áhuga Breta á að taka upp evru í stað punds. Þessi könnun er ein af fjölmörgum könnunum sem koma sér illa fyrir Evrópusambandssinna á Íslandi og Samtök iðnaðarins og aðrar málpípur Brussel, að ógleymdum fréttamönnum, frétta þess vegna ekki af. Og skyldi engan undra þótt evru- og Evrópusambandssinnar vilji sem minnst af þessari könnun vita, því aðeins 21% Breta vilja taka upp evru í stað punds. Oft láta Evrópusambandssinnar eins og Íslendingar séu að missa af einhverri hraðlest í Evrópu sem allir verði að stökkva um borð í, en staðreyndin er sú að miklar efasemdir eru víða í Evrópu um samrunann sem þar á sér stað og að auki mikil óvissa um í hvaða átt verður haldið. Þegar hin nýju ríki sem nú bíða aðildar hafa verið tekin inn í sambandið, hvert mun það þá stefna? Verður Evrópusambandinu sett sameiginleg stjórnarskrá? Verða skattareglur samræmdar? Verða áhrif smáríkja enn minni en nú er? Um þetta er deilt nú og enginn getur svarað þessum spurningum með nokkurri vissu. Þrátt fyrir þetta eru enn til menn sem vilja að Ísland sæki um aðild að þessum klúbbi sem enginn veit hvernig verður eftir örfá ár.

Eitt vita menn þó, þrátt fyrir að settar hafi verið saman lærðar ritgerðir sem hafa átt að sýna fram á hið gagnstæða, og það er að Evrópusambandið mun aldrei undanskilja Ísland frá sjávarútvegsstefnu sinni. Þetta hafa margir embættis- og stjórnmálamenn innan Evrópusambandsins staðfest í gegnum tíðina þó umræðan hér snúist stundum um draumsýn og sýndarveruleika íslenskra Evrópusambandssinna sem vita að án sérsamnings um sjávarútvegsmál vilja Íslendingar alls ekki inn í Evrópusambandið. Nýjasta staðfestingin á því að undanþága komi ekki til greina fékkst í gær þegar íslenskur útvarpsmaður átti tal við Franz Fischler, sem stýrir sjávarútvegsmálum innan Evrópusambandsins. Fischler segir, líkt og stundum hefur verið bent á, að tímabundinn aðlögunarsamningur komi til greina í sjávarútvegsmálum, en til frambúðar sé slíkt út úr myndinni og Íslendingar yrðu eins og aðrir að fara að reglum klúbbsins.

Þrátt fyrir þetta munu íslenskir Evrópusambandssinnar halda áfram að berja hausnum við steininn og halda því fram að við eigum bara að sækja um aðild, fara í aðildarviðræður og sjá svo til hvað út úr þeim viðræðum kemur. Og um leið segja þeir yfirleitt, því þeir vita að annað er til óvinsælda fallið, að auðvitað komi ekki til greina að fara inn ef það þýðir að við verðum að missa forræðið yfir fiskimiðunum til Brussel. Sem sagt: Hefjum viðræður þó að við vitum fyrirfram að við verðum að hafna þeim samningi sem okkur mun bjóðast. Þetta þykir Evrópusambandssinnum góð ráðstöfun og æskileg notkun bæði á tíma og peningum landsmanna.