Ígær var sjómannadagurinn eins og margir munu vita. Á þeim degi er mjög við hæfi að stór orð séu látin falla, til dæmis um hafrannsóknarstofnun, fiskistofu, útgerðarmenn, afleita sjávarútvegsráðherra, ómögulega stjórnmálamenn og önuga hafnarstjóra. Að því búnu er tilvalið að fara í reiptog, koddaslag og dvergakast. Þetta tilheyrir allt og er ómissandi. Í gær bættust hins vegar við ný stóryrði. „Lýðræðið“ varð nefnilega fyrir einu áfallinu enn og „tjáningarfrelsið“ sömuleiðis. Þannig háttaði nefnilega til að á Akureyri var hætt við að fá þingmann nokkurn, Árna Steinar Jóhannsson að nafni, til að flytja ávarp á tiltekinni skemmtun en í hans stað leitað til Valgerðar Sverrisdóttur, ráðherra.
Í fréttum var sagt að þetta hefði meðal annars verið gert þar sem útgerðarfyrirtækjum bæjarins hefði líkað illa að þurfa að sitja undir ræðuhöldum þessa þingmanns en fyrirtækin munu styrkja hátíðarhöld dagsins veglega. Og þessir atburðir kalla á stóryrði, ekki bara umrædds Árna Steinars heldur einnig heils þingflokks – að vísu þingflokks vinstri-grænna – og er nú hiklaust talað um skoðanakúgun hina verstu.
Eins og oft þegar svo er gapað er lítil innistæða fyrir ákafanum. Árni Steinar Jóhannsson á engan rétt á því að vera ræðumaður á sjómannasamkomum. Ekki frekar en Andríki ætti rétt á því að lesið væri upp úr Vefþjóðviljanum í upphafi hvers þingflokksfundar vinstri-grænna. Það er ekkert brot á réttindum Árna Steinars Jóhannssonar þó hann sé ekki fenginn til að tala yfir norðlenskum sjómönnum. Annað atriði svo ef búið var að semja við Árna Steinar um ræðuhöldin og hann þá kannski búinn að leggja í vinnu við að setja saman ræðu sína, en slík samningsrof – ef það á þá að kalla því nafni – eru hvorki skoðanakúgun né aðför að lýðræði í landinu. Það eru þá bara venjuleg samningsrof sem verðskulda hvorki stóryrði né fréttaviðtöl við sárt leikinn þingmann.
Og fyrst talað er um tjáningarfrelsi: Tjáningarfrelsi manna er skert ef opinberu valdi er beitt til banna hinum almenna manni að tjá sig opinberlega, hvort sem það er gert með fyrirfram banni eða eftirá refsingum. Það er ekki skerðing á tjáningarfrelsi þó einn maður aðstoði ekki annan við að koma skoðun hans á framfæri. Það er til dæmis ekki skerðing á tjáningarfrelsi þó fjölmiðill neiti að birta greinar frá einhverjum manni eða útvarpsstöð neiti að senda út söng hans eða ávörp. Og það er ekki skerðing á tjáningarfrelsi eins né neins þó sjómannadagsráð Akureyrar geri hann ekki að hátíðarræðumanni á sjómannadegi!