Til hamingju með daginn, sjómenn! |
Morgunblaðið, á hverjum einasta sjómannadegi. |
Það vantar ekki, Morgunblaðið sendir sjómönnum jafnan virðulegar kveðjur á sjómannadaginn, gjarnan undir forsíðumynd af veðurbitnum manni í sjóstakki. Það þarf nefnilega enginn að efast um að Morgunblaðið ber mikla virðingu fyrir sjómönnum og vill veg þeirra sem mestan og hag þeirra sem bestan. Eða hvað? Nei, þegar til stykkisins kemur þá er það nú einmitt Morgunblaðið sem er sá fjölmiðill sem hefur ríkasta ástæðu til að láta lítið fyrir sér fara á hátíðisdegi sjómanna. Þó blaðið muni vitaskuld aldrei gangast við því – og hvorki fyrir sjálfu sér né öðrum – þá er það Morgunblaðið sem unnið hefur sjómannastéttinni og öllum þeim sem starfa við sjávarútveg á Íslandi mest ógagn undanfarin ár. Ofstækisfull meinlokubarátta nokkurra forsvarsmanna blaðsins fyrir sérstakri skattlagningu á íslenskan sjávarútveg bar nýlega þann árangur að Alþingi samþykkti að hefja slíka skattheimtu. Þarf enginn að efast um að sú skattheimta mun aukast en ekki minnka á næstu árum.
Hinn nýi sjávarútvegsskattur mun auðvitað skerða kjör sjómanna þó þeir muni ekki greiða hann beint úr eigin vasa. En allir skattar sem heimtir eru af fyrirtækjum draga úr getu þeirra til launagreiðslna og annarra útgjalda. Morgunblaðið og aðrir meinlokumenn höfðu það fram að nýr skattur var lagður á útgerðarfyrirtækin í landinu og verður hann enn einn bagginn um háls þeirra. Útgerðarfyrirtækin munu þurfa að greiða meira fé í ríkissjóð en hafa minna aflögu til annarra útgjalda, hvort sem það er að greiða starfsmönnum laun, halda skipum og búnaði við eða greiða arð til hluthafa. Auðlindagjaldið var sigur Morgunblaðsins, annarra sósíalista og ríkishítarinnar. Auðlindagjaldið er ósigur allra þeirra sem koma að sjávarútvegi; sjómanna, fiskvinnslufólks, stórra og smárra hluthafa í sjávarútvegsfyrirtækjum og ekki síst áfall þeim byggðum sem allt sitt eiga undir sjávarútveginum. Auðlindagjaldið er kveðja ritstjóra Morgunblaðsins til alls þessa fólks og öfugt við tilgerðarlegar hamingjuóskir hefur hún bein áhrif á líf þess fólks sem henni er beint til.
En á sjómannadaginn eru allir vinir sjómanna og fjölmiðlarnir keppast svo við að sýna virðingu sína að á sumum ritstjórnum er sérstakur maður hafður í því að tyggja skro allan daginn. Og alls staðar eru birtar línur úr Hrafnistumönnum Arnar Arnarsonar, en það ágæta skáld orti mjög um sjómenn og lífsbaráttu þeirra og þetta kvæði er víða orðið nokkurs konar hátíðarsöngur sjómannadags. En eins og áður sagði þá er misjafnt hversu vel fjölmiðlum fer á að slá sér upp á sjómannadaginn eða hversu vel Hrafnistumenn fara þeim í munni. Sumir ættu jafnvel að velta fyrir sér hvort hugsanlega færi betur á því að þeir vitnuðu frekar í eitthvert annað verk Arnar Arnarsonar, til dæmis hina gamansömu rímu hans af Oddi Sigurgeirssyni. Til dæmis þessa litlu hringhendu:
Oddur sterki aldrei var undir merki lyginnar Fólskuverkin verja þar vorir erkiritstjórar. |
En það er ekki eins og Vefþjóðviljinn sé andvígur allri lagasetningu sem kynni að koma óþægilega við sjómenn eða útgerðarmenn. Þannig þykir blaðinu sem afnema eigi svokallaðan sjómannaafslátt, en með honum er átt við sérstakan skattaafslátt sem sjómenn fá fyrir hvern dag sem þeir eru á sjó. Í raun má halda því fram að með þessu taki hið opinbera þátt í launagreiðslum útgerðarinnar því sjómannaafslátturinn eykur ráðstöfunartekjur hvers sjómanns verulega og þurfa þeir þá væntanlega að sækja minna í greipar vinnuveitanda sinna. Þetta fyrirkomulag er óeðlilegt og ætti Alþingi að afnema það. Annað mál er svo hvenær slík breyting ætti að koma til framkvæmda en segja má að sanngirnissjónarmið mæli með því að það gerðist ekki fyrr en svo að sjómenn geti miðað næstu kjarasamninga sína við nýjar aðstæður.
Annað deilumál kemur reglulega upp og tengist baráttu forystu íslenskra farmanna gegn því að erlendir farmenn fái störf á íslenskum skipum. Reyndar eru kröfurnar ekki orðaðar svo heldur er ævinlega látið eins og íslenska farmannaforystan sé að berjast fyrir hagsmunum hinna erlendu farmanna. Eru í því sambandi sagðar miklar sögur af því hversu lág laun hinir erlendu sjómenn fái og gerir íslenska farmannaforystan kröfu um að útlendingarnir fái greitt samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Og sú krafa hljómar nú stundum afskaplega sanngjörn og mannúðleg þegar sagðar eru miklar sögur af lágum launum hinna erlendu sjómanna.
En eins og svo oft áður þegar verkalýðsforingjar eða aðrir stjórnlyndir menn gera kröfur fyrir annarra hönd, þá er það eitt og annað sem hangir á spýtunni. Jafnvel þó að ýtrustu sögur farmannaforystunnar af launakjörum hinna erlendu keppinauta þeirra séu teknar trúanlegar, þá eru hinir erlendu sjómenn að fá hærri laun en þeim bjóðast í heimalandinu. Þeir fá hins vegar vart rúm á íslensku skipunum nema bjóða þjónustu sína – vinnuafl sitt – á lægra verði en heimamenn gera. Farmannaforystan sem segist aðeins vilja að erlendu farmennirnir setji upp sama verð og íslenskir farmenn er hreint ekki að reyna að bæta kjör útlendinganna. Hún er að reyna að tryggja það að enginn hafi hag af því að kaupa vinnuafl hinna útlendu manna. Og þeir missi þar með þessa leið til þess að bæta bág lífskjör sín.
Samband vinnuveitanda og launþega eru eins og hver önnur viðskipti. Þar er einfaldlega um það að ræða að menn skipta á vinnuframlagi og launum. Rétt eins og menn fara í matvöruverslun og skipta á nýlenduvörum og reiðufé. Barátta farmannaforystunnar fyrir því að erlendum farmönnum verði bannað að setja lægra gjald upp fyrir þjónustu sína er sambærileg við það ef ein verslun vildi banna annarri að selja vörur með lægri álagningu. Þó fyrri verslunareigandinn myndi segja að hann hefði hagsmuni keppinautarins í huga, hann vildi bara að keppinauturinn hefði eitthvað almennilegt upp úr krafsinu, þá myndu flestir sjá í gegnum það yfirskin. Með sama hætti hljóta menn að sjá hvað í raun liggur að baki kröfum farmannaforystunnar þess efnis að erlendir farmenn noti sömu kjarasamninga og hinir íslensku keppinautar þeirra.