Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir þingmaður Samfylkingarinnar hefur á undanförnum dögum reynt að blanda sér í baráttuna fyrir borgarstjórnarkosningar í Reykjavík. Svona fyrirfram var ekki gott að átta sig á því hvaða framboð Ásta myndi styðja. Annars vegar er í boði framboð nokkurra flokka en Ásta hefur einmitt sagt skilið við suma þeirra. Hins vegar er framboð Sjálfstæðisflokks en það er einmitt eini flokkur landsins sem Ásta hefur ekki gengið úr með brauki og bramli. Hið furðulega er að Ásta styður framboð flokkanna sem hún hafðist ekki við í. Þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur.
En ástæðan fyrir því að Ásta blandar sér í borgarstjórnarslaginn er umhyggja hennar fyrir þeim sem þurfa að leigja húsnæði. Um þetta hefur hún skrifað greinar í Morgunblaðið síðustu daga þar sem hún útlistar þörfina fyrir auknar húsaleigubætur. Ásta gekk í Þjóðvaka Jóhönnu Sigurðardóttur á stofnfundi hans snemma árs 1995. Sama dag var hún kosin í miðstjórn Framsóknarflokksins og var eini miðstjórnarmaðurinn sem bauð sig fram fyrir Þjóðvaka það árið. Flokkur Jóhönnu virtist góður kostur fyrir áhugamenn um húsaleigubætur á borð við Ástu en Jóhanna hafði verið félagsmálaráðherra frá árinu 1987, m.a. í vinstri stjórninni árin 1988 – 1991, án þess að leigjendur fengju nokkrar húsaleigubætur en um leið og lög um slíkar bætur voru samþykkt í maí árið 1994 sagði hún af sér embætti til að mótmæla stefnu ríkisstjórnarinnar.
Til að auka þrýstinginn um auknar húsaleigubætur gekk Ásta í Alþýðuflokkinn og síðar í Samfylkinguna og hafði forgöngu um að Samfylkingin tæki upp það stefnumál fyrir síðustu þingkosningar að hækka skatta á leigutekjur úr 10% í 40% sem leiðir auðvitað til hærra leiguverðs og aukinnar þarfar fyrir húsaleigubætur. Og Ásta styður R-listans eðlilega enda hefur leigan hækkað í hvert sinn sem R-listinn hefur hækkað skatta og gjöld á íbúðahúsnæði og dregið úr lóðaframboði, en hvort tveggja veldur því að húsaleiga rýkur upp. R-listinn hefur reynst borgarbúum illa en leigjendum sérstaklega illa.
Enda styður Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir R-listann. Af sérstakri umhyggju fyrir… leigjendum.