Nú standa fyrir dyrum kosningar til nýrrar borgarstjórnar Reykjavíkur og meðal þess sem núverandi minnihluti hefur haft gegn R-listanum er það, að borgaryfirvöld hafi mjög aukið á skattheimtu gagnvart borgurunum og hafi meira að segja reynt að fela það fyrir borgarbúum með því að hækka útsvarið jafnan á sama tíma og ríkisstjórnin hefur staðið fyrir tekjuskattslækkun. Þannig hafi borgaryfirvöld beinlínis hrifsað til sín þá skattalækkun sem ríkisstjórnin ætlaði borgurunum en hafi gert það með þeim hætti að borgararnir taki varla eftir þeim auknu sköttum sem þeir hafa verið látnir greiða í borgarhítina.
Stjórnarandstaða reynir vitaskuld að benda á það sem miður fer hjá stjórnvöldum og er ekkert við því að segja. Misjafnt er hins vegar hversu mikið er til í þeirri gagnrýni sem sett er fram hverju sinni. En hvað sem því líður þá þarf óvenju forstokkaðan R-listamann til að mótmæla því að R-listinn hafi stórlega aukið skattheimtu á borgarbúa og gert það með þeim hætti sem hér hefur verið lýst. En slíkir menn eru því miður til og oft ótrúlega áberandi í fjölmiðlum og annarri opinberri umræðu. Þessa dagana fara þessir menn til dæmis milli fjölmiðla og afneita því bara með öllu að R-listinn hafi hækkað skatta á borgarbúa og stóraukið skuldir borgarinnar á sama tíma. Fullyrðingar slíkra manna ná svo þakklátum eyrum þeirra sem ógjarnan vilja trúa nokkurn hlut sem hægri menn segja, en gleypa kosningar eftir kosningar við hverju því sem oddvitum vinstri flokkanna þóknast að bjóða stuðningsmönnum sínum og öðrum borgarbúum upp á.
En kannski hlusta þessir mætu kjósendur ef einhverjir aðrir taka til máls. Einhverjir sem ekki verða með nokkru móti sakaðir um að reka erindi hins sítortryggða minnihluta. Einhverjir sem ekki verða taldir til pólitískra andstæðinga R-listaflokkanna. Eigum við að reyna? Tökum þá dæmi og sjáum til hversu harðir menn verða í því að afneita því sem þeir heyra, lesa og sjá. Veturinn 1998 til 1999 ákvað ríkisstjórnin að lækka tekjuskatt landsmanna og var sú ákvörðun meðal annars tekin í tengslum við gerð kjarasamninga. Þessi skattalækkun hefði skilað landsmönnum mikilli kjarabót og gerði verkafólk og forysta verkalýðsfélaganna ráð fyrir henni í áætlunum sínum. En nei, þau höfðu gleymt vini sínum, hinum heiðarlega stjórnmálamanni nýja tímans, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Hún sá sér nefnilega leik á borði og hækkaði útsvarið til móts við tekjuskattslækkun ríkisstjórnarinnar svo reykvískir launþegar urðu af skattalækkuninni sem þeim hafði verið ætluð. Jú jú, þeir greiddu minna til ríkisins. En þeim mun meira til Reykjavíkurborgar.
Margir átta sig ekki á því að talsverður hluti tekjuskattsins sem þeir greiða í hverjum mánuði er einfaldlega útsvar til sveitarfélagsins. Verkalýðsforystan áttaði sig hins vegar vel á því hvernig núverandi borgaryfirvöld voru að koma aftan að launþegum og mótmælti harðlega. Formenn landssambanda innan Alþýðusambands Íslands komu saman og mótmæltu skattahækkunum R-listans harðlega og bentu auk þess á að sveitarfélögin „hafi verið að auka útgjöld sín langt umfram það sem þau hafi svigrúm til og þannig sýnt ábyrgðarleysi sem nú bitni á almennu launafólki.“ Hið sameinaða verkamanna- og verkakvennafélag, Dagsbrún og Framsókn, mótmælti ekki síður harðlega og sagðist hreinlega líta á skattahækkanir R-listans sem brot á kjarasamningum. „Það er mjög erfitt að kyngja þessu þegar framundan eru skattalækkanir sem samið var um í síðustu samningum og þar að auki er síðasta launahækkunin að koma líka. Við erum því vægast sagt mjög óhress með þetta“ sagði Halldór Björnsson formaður Dagsbrúnar og Framsóknar í Reykjavík.
Formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, fjölmennasta verkalýðsfélags landsins, sagði að skattahækkanir R-listans væru „óskaplegt högg í andlit verkalýðsfélaga“ enda lægi það „alveg ljóst fyrir að þegar verkalýðshreyfingin var að gera kjarasamninga á síðasta ári var markmiðið með þeim launahækunum, sem þá var samið um, ekki að mæta hækkun útsvara heldur fyrst og fremst að semja um kaupmáttarauka.“ Formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur sagði að vitanlega hefði „fyrirheit ríkisstjórnarinnar um verulega lækkun á tekjuskattsprósentunni“ ráðið miklu þegar verkalýðshreyfingin hefði skömmu áður gengið til kjarasaminga. „Að fá svo núna tilkynningu um það að Reykjavíkurborg ætli að hækka útsvarið nánast sem nemur þeirri lækkun sem á að koma um næstu áramót frá ríkisvaldinu er alveg ótrúlegt að skuli gerast.“
Frægt var þegar hinn málefnalegi og heiðarlegi stjórnmálamaður, áðurnefnd Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, gaf kost á sér til embættis borgarstjóra vorið 1994, að þá var sögð af því mikil saga í kosningablaði R-listans að maður nokkur hefði vikið sér að henni á götu úti og spurt með þjósti hvort hún ætlaði að hækka skatta á borgarbúa. Ingibjörg hefði þá svarað afdráttarlaust að hún myndi enga skatta hækka og spurt manninn á móti hvernig honum hefði eiginlega dottið annað eins og þetta í hug. „Ja, vinnuveitandi minn sagði okkur starfsmönnum sínum það“, var haft eftir honum og þurfti þá ekki að segja meira. Þetta var auðvitað allt ein lygin enn í „vinnuveitendum“; ófreskjunum sem alltaf ljúga að saklausu fólki og reka erindi Flokksins gegn Fólkinu.
Eftirleikinn þekkja allir. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir náði kjöri og í hvert einasta sinn sem borgarbúar greiða hækkuðu útsvörin – nú eða holræsagjaldið svo annað dæmi sé tekið – sjá þeir hvort sagði satt og hvort laug, hinn ónafngreindi vinnuveitandi mannsins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mikilmenni.
Því hér duga hvorki almenn afneitun né sjálfsbirgingslegar fullyrðingar þeirra sem í baráttu sinni fyrir málstað R-listans hafa gert sannleikann að sérstökum andstæðingi sínum. Staðreyndirnar tala nefnilega sínu máli hvort sem vinstri mönnum líkar betur eða verr: Á mesta góðærisskeiði í manna minnum hefur stjórnvitringum R-listans bæði tekist að hækka skatta borgaranna og skuldir borgarinnar stórkostlega. Það er sannarlega ótrúlegur árangur sem fáir munu leika eftir.