Föstudagur 10. maí 2002

130. tbl. 6. árg.

Í þættinum „Málinu“ á Skjá 1 í vetur flutti varaþingmaður Samfylkingarinnar úr Flóanum mikla þulu um nauðsyn þess að opna bókhald stjórnmálaflokka. Fór ekki á milli mála að maðurinn telur það algjört grundvallaratriði að flokkar gefi upp hverja krónu og allt annað tómt siðleysi. Vef-Þjóðviljinn leyfir sér að birta nokkur brot úr þessum boðskap hér:

„Enginn vafi má leika á að um óeðlileg áhrif peningavaldsins á stjórnmálaflokkana sé að ræða. Það þarf að vera hafið yfir allan vafa.“

„Þiggi flokkur fjárhæð yfir ákveðnu marki eigum við siðferðilegan rétt á að vita af því. Einfaldlega vegna þess að enginn vafi má leika á um að ítök hans í viðkomandi flokki bitni á almannahagsmunum, eða að hann njóti óeðlilegrar fyrirgreiðslu.“

„Þeir sem búa yfir miklum fjármunum eiga ekki að hafa meiri áhrif en aðrir á stjórnmálaflokkana. Það er því ekki einkamál flokkanna hverjir styrkja þá. Leyndin grefur undan lýðræðinu og eykur líkur á spillingu.“

„Það þarf að aflétta leyndinni sem ríkir yfir þessu í stjórnmálalífi okkar. Í nágrannalöndunum þykja slíkar reglur eðlilegur hluti af opinni og nútímalegri stjórnsýslu. Leyndin skapar tortryggni og tortryggni grefur undan trausti fólks á flokkunum.“

„Opið bókhald minnkar ægivald peninganna í pólitíkinni.“

Það er viðbúið að framkvæmdastjórar stjórnmálaflokkanna hafi setið skömmustulegir undir þessari umvöndun. Það var þó lán í óláni að Björgvin G. Sigurðsson framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar var ekki meðal áheyrenda en bókhald Samfylkingarinnar er harðlæst og hætt við að Björgvin hefði orðið kindarlegur að heyra þetta. Það bjargaði Björgvini frá því að horfa á Málið að þessu sinni að hann var einmitt upptekinn við að flytja það.