Í nýjasta fréttabréfi fjármálaráðuneytisins er sagt frá því að 32 félög hafi óskað eftir heimild til færslu bókhalds og gerð ársreikninga í erlendri mynt samkvæmt nýsamþykktum lögum þess efnis. Það kemur án efa ýmsum spánskt fyrir sjónir að af þessum 32 félögum hafa 26 óskað eftir því að gera sín mál upp í dölum en aðeins 4 í evrum. Sitt hvort félagið hefur svo kosið pund og norska krónu. Fáum kemur þetta þó jafnmikið á óvart og svonefndum evrópusinnum sem hafa haldið því að mönnum á síðustu misserum að evran sé sjálfgefin fyrir íslenskt atvinnulíf. Nú kemur hins vegar í ljós að aðeins 12,5% þeirra fyrirtækja sem hafa sótt um að gera upp í erlendri mynt velja evruna. Það er svona svipaður stuðningur og mældist við aðild að ESB í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Á sama tíma hafa 81,3% fyrirtækja valið dalinn. Það væri að sjálfsögðu engin sönnun fyrir því að Íslendingar eigi að taka upp evru þótt fleiri fyrirtæki vildu gera upp í evrum. Samtök iðnaðarins væru hins vegar búin að senda nokkra tugi fréttatilkynninga um málið ef svo vildi til. Á meðan það gerist ekki verða þau að láta sér nægja að senda fréttatilkynningar um að fylgi við evruna hafi aukist um 1,29% hjá sænskum mjólkurbílstjórum og 3,57% hjá dönskum smurbrauðsnemum.
Það er heldur engin sönnun fyrir því að Íslendingar eigi að taka upp dalinn að yfir 80% þessara fyrirtækja kjósi hann fram yfir aðra mynt.
Það er einnig merkilegt að í árslok 2000 áttu útlendingar 40,9 milljarða króna í íslenskum fyrirtækjum. Undir slíka beina fjárfestingu falla einungis stærri fjárfestingar sem fela í sér áhrif á stjórn fyrirtækis eða að fjárfestir á 10% eða stærri hlut í fyrirtæki. Af þessum 40,9 milljörðum króna eiga fjárfestar innan ESB aðeins 10,9 milljarða eða tæp 27%. Af þessum 10,9 milljörðum er raunar helmingur frá ríkjum sem nota ekki gjaldmiðil ESB. Erlend fjárfesting frá evrulöndunum er því innan við 14%. Bæði Svisslendingar og Norður-Ameríkumenn taka meiri þátt í íslensku atvinnulífi en fjárfestar frá ríkjum ESB.
ERLEND_FJARF
Það er því ekki að ástæðulausu sem haldið er upp á dag Evrópusambandsins hér á landi en hann er einmitt í dag. Það er ekki vanþörf á að minna á þetta samband þegar aðeins um 12% Íslendinga vilja ganga til liðs við það, aðeins 12% fyrirtækja vilja nota gjaldmiðil þess og aðeins 14% af erlendri fjárfestingu á Íslandi er frá þeim löndum sem nota þessa margrómuðu mynt.