Ár eftir ár endurtekur sumt fólk þá smekkleysu að þramma um í halarófu með rauða fána blaktandi yfir höfði sér. Þessari athöfn virðist haldið við í þeim tilgangi einum að upphefja verkalýðsfélög og láta líta út fyrir að þeim megi þakka þær kjarabætur sem orðið hafi hér á landi á síðustu árum og áratugum. Verkalýðsrekendur hafa gaman af slíkri upphafningu enda byggja þeir stöðu sína á að einhver trúi því að starf þeirra hafi verið til nokkurs og að þeim beri réttur og skylda til að innlima fólk í félög sín og taka að sér samninga fyrir launamenn, hvort sem það er launamönnunum að skapi eða ekki.
„…fyrir þér ber ég fána þessa framtíðarlands.“ |
Nú er ekki víst að allir taki þessar rauðfánagöngur mjög hátíðlega eða leggi mikla merkingu í þær, fyrir sumum er þetta þramm sjálfsagt bara einhver gömul hefð. Undir það má taka með þessu fólki að hefðir geta verið skemmtilegar og yfirleitt er af þeim bæði gagn og gaman. Sumar eru þó þess eðlis að ástæða er til að brjóta þær og losa sig undan þeim. Það að ganga um með rauðan fána er ein þeirra hefða sem ekki á rétt á sér. Með henni er verið að senda alröng skilaboð um að stéttaátök hafi átt þátt í kjarabótum launamanna þegar sú staðreynd blasir við að það er markaðshagkerfinu að þakka að launamenn hafa bætt kjör sín gífurlega. Það er varðstaðan um eignarréttinn og athafnafrelsi manna sem hefur skilað kjarabótum í hverju landinu á fætur öðru, en stéttaátök eða kenningar um slík átök hafa aldrei skilað neinu nema fátækt og eymd. Tákn slíkra kenninga – hvort sem menn kalla þær sósíalisma, kommúnisma, félagshyggju, jafnaðarstefnu, eða eitthvað enn annað – er rauði fáninn. Rauði fáninn er um leið tákn um mestu mannfórnir sögunnar, en talið er að yfir 100 milljónir manna hafi látið lífið undir merkjum hans.